Erlent

Mikil flóð eftir úrhelli í sænsku Dölunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vatn hefur flætt inn í hús í Gävle og víðar í Svíþjóð í vatnavöxtunum þar síðasta sólarhringinn.
Vatn hefur flætt inn í hús í Gävle og víðar í Svíþjóð í vatnavöxtunum þar síðasta sólarhringinn. Vísir/EPA

Skemmdir hafa orðið á vegum og brúm og flætt hefur inn í íbúðarhús í miklum flóðum í kjölfar úrhellisúrkomu í Gävleborg og Dölunum í austanverðri Svíþjóð. Íbúar á svæðinu eru varaðir við því að vera á ferðinni nema alger nauðsyn krefji.

Sænska ríkisútvarpið segir að um það bil 161,6 millímetrar regns hafi fallið í Gävle frá klukkan átta að staðartíma í gærmorgun til klukkan átta í morgun. Til samanburðar mældist mesta sólarhringsúrkoma á Íslandi rúmir 92 millímetrar á Höfn í Hornafirði í fyrra.

Magnus Jansson Klarin, talsmaður héraðsstjórnar lögreglunnar á svæðinu, segir að fólki sé ráðlagt að keyra ekki á vegum vegna hættu á skriðum. Þrír vegir hafa þegar rofnað eða eru við það að gefa sig. Dæmi séu um að ökumenn hafi þurft að þvera litlar ár til að forðast að landa í skriðum. Lögreglan nær hins vegar ekki að loka öllum vegum sem hætta er á að fari í sundur.

Viðbragðsaðilar hafa þurft að forgangsraða útköllum vegna þess mikla fjölda sem hefur borist frá því í nótt.

„Þessa stundina veit ég að margir húseigendur eru sjálfir á fullu að reyna að koma vatninu út,“ segir Johan Nordin frá Dalarmitt-björgunarliðinu á svæðinu.

Björgunarsveitarmaður hugar að bíl á kafi í flóðavatni í Falun í Svíþjóð.Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×