Sport

Safnaði fyrir aðgerð lítils barns með því að bjóða upp Ólympíusilfrið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maria Andrejczyk sendir fingurkoss á verðlaunpallinum með Ólympíusilfrið sitt um hálsinn.
Maria Andrejczyk sendir fingurkoss á verðlaunpallinum með Ólympíusilfrið sitt um hálsinn. AP/Martin Meissner

Pólski spjótkastarinn Maria Andrejczyk vann silfur á Ólympíuleikunum í Tókýó á dögunum en hún var tilbúin að láta frá sér silfrið sitt aðeins nokkrum vikum síðar.

Andrejczyk var svo umhugað um framtíð lítils barns að hún setti Ólympíusilfrið sitt á uppboð til að safna fyrir nauðsynlegri aðgerð kornabarnsins.

Hinn átta mánaða gamli pólski strákur Miloszek Malysa þarf á hjartaaðgerð að halda í Stanford University í Bandaríkjunum og sú er kostnaðarsöm.

„Miloszek hefur alvarlegan hjartagalla og þarf á aðgerð að halda. Ég vil hjálpa og því ætla ég að bjóða upp silfurmedalíu mína frá Ólympíuleikunum,“ skrifaði Maria Andrejczyk á samfélagsmiðla sína.

Andrejczyk setti sér það markmið að safna 390 þúsund dölum eða um fimmtíu milljónum íslenskra króna.

Andrejczyk bauð upp silfrið og vildi fá 190 þúsund Bandaríkjadali fyrir það en á endanum var það pólska verslunarkeðjan Zabka sem keypti silfurmedalíuna fyrir 265 þúsund dollara.

Zabka gerði meira en það því forráðamenn hennar ákváðu að Andrejczyk mætti halda silfrinu sínu.

„Við erum snortin af fallegu og ótrúlega göfugu vinarbragði Ólympíufarans okkar og höfum við ákveðið að styrkja þessa söfnun. Við höfum líka ákveðið að Ólympíusilfrið verður áfram hjá Maríu. Við dáumst af Andrejczyk og erum ánægð að geta hjálpað til,“ sagði í yfirlýsingunni frá Zabka.

Maria Andrejczyk er 25 ára gömul og hefur sjálf sigrast á krabbameini. Hún varð fjórða á Ólympíuleikunum í Ríó en komst á pall í Tókýó með því að kasta spjótinu 64,61 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×