Fótbolti

Messi og konan þurftu að hressa hvort annað við áður en þau sögu strákunum frá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með eiginkonu sinni Antonella Roccuzzo og syni þeirra Thiago.
Lionel Messi með eiginkonu sinni Antonella Roccuzzo og syni þeirra Thiago. EPA-EFE/ANDREU DALMAU

Guillem Balague, fréttamaður breska ríkisútvarpsins í spænska boltanum, fékk einkaviðtal við Lionel Messi eftir blaðamannafundinn á Parc des Princes í gær þar sem Messi var kynntur formlega sem nýr leikmaður Paris Saint Germain.

Balague þekkir vel til Messi eftir að hafa fjallað um spænska boltann í mörg ár. Hann birti viðtalið við Leo á Twitter síðu sinni og setti enska texta undir en viðtalið fór fram á spænsku.

Í upphafi viðtalsins kom fram að Messi hafi verið að læra ensku í eitt og hálft ár en hann skilji hana nú miklu betur en hann talar hana.

Balague spurði Messi líka persónulegra spurninga í viðtalinu, fékk hann til að bera saman ferðalagið frá Argentínu til Barcelona á sínum tíma við ferðalagið frá Barcelona til Parísar í þessari viku.

Hann spurði líka Messi um stundina þegar hann fékk að vita að framtíð hans væri ekki lengur í Barcelona.

Messi var þá heima hjá sér þegar faðir hans kom af fundi með Joan Laporta og sagði frá því að Messi fengi ekki samninginn hjá Barcelona.

Messi sagðist hafa orðið mjög leiður þegar hann fékk þessar fréttir en hann sagði síðan eiginkonunni Antonelu frá. Þau voru bæði niðurdregin og svo var komið að því að segja strákunum frá þessum komandi breytingum.

Strákarnir höfðu fengið að vita það í desember að fjölskyldan yrði áfram í Barcelona þar sem þeir hafa alist upp og vilja vera. Nú var allt breytt. Þeir voru að förum frá sínum uppáhaldsstað.

Messi sagði að hann og Antonela hafi þurft að hressa hvort annað við áður en þau lögðu í það að segja strákunum frá þessu.

Messi hafði sérstaklega áhyggjur af elsta stráknum, hinum níu ára gamla Thiago. Eins og er lítur út fyrir að Thiago sé sáttur í París sem eru góðar fréttir. Messi segir samt að hann sé eins og hann og birgi allt inni. Hann segir þá strákinn eigi eftir að aðlagast þessum miklu breytingum á þeirra lífi.

Hér fyrir ofan má sjá þetta viðtal við Messi en þar segir hann frá því að Neymar og Argentínumennirnir hjá Paris Saint Germain hafi fengið að vita það á undan öllum öðrum að hann væri að íhuga það að koma til PSG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×