Lífið

Ingó spilaði fyrir Ís­lendinga á Tenerife

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ingólfur sést hér spila á staðnum í kvöld.
Ingólfur sést hér spila á staðnum í kvöld. Skjáskot

Svo virðist sem Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, hafi troðið upp á veitingastaðnum Bambú bar & bistro í bænum Adeje á spænsku eyjunni Tenerife í kvöld.

Á Facebook-síðu staðarins má sjá upptökur af Ingólfi spila á gítar og syngja á staðnum, við nokkuð góðar viðtökur gesta. Af lengd upptakanna að dæma spilaði Ingólfur í um tvo klukkutíma. Fyrr í vikunni greindi Hringbraut frá því að staðurinn hefði auglýst að í kvöld yrðu tónleikar með Ingó, en síðan eytt auglýsingunni.

Nokkuð hefur verið fjallað um Ingólf að undanförnu en Þjóðhátíðarnefnd ÍBV, sem fer með skipulagningu Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum, hætti við að fá hann til þess að leiða brekkusönginn á hátíðinni í ár, eftir að aðgerðasinnahópurinn Öfgar birti fjölda ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Eftir að málið komst í hámæli sendi þáverandi lögmaður Ingólfs, Vilhjálmur H.Vilhjálmsson, minnst sex einstaklingum kröfubréf vegna ummæla um Ingólf á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum. Í öllum tilvikum var þess krafist að Ingólfur yrði beðinn afsökunar, auk þess sem greiðslu miskabóta og lögmannskostnaðar var krafist. Vilhjálmur er síðan búinn að segja sig frá máli Ingólfs.


Tengdar fréttir

Ingó sendir sjötta kröfubréfið vegna nýrra ummæla

Ingólfur Þórarinson, betur þekktur sem Ingó veðurguð, hefur sent sjötta kröfubréfið vegna ummæla um hann á samfélags- eða fjölmiðlum. Þetta staðfestir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður Ingólfs í samskiptum við fréttastofu en Ríkisútvarpið greindi fyrst frá sendingu kröfunnar. Þá staðfestir Vilhjálmur að nýja krafan sé vegna ummæla sem birt voru eftir að fyrri kröfubréf voru send.

„Ef þú ert með vandaðan tón­listar­smekk verður kynja­hlut­fallið jafnt“

Skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Innipúkans, sem haldin er í Reykjavík árlega, eru furðu lostnir yfir því að útihátíðum á Íslandi takist ekki að halda kynjajafnvægi þegar tónlistarmenn eru valdir til að spila á hátíðunum. Þeir segja að hafi menn góðan tónlistarsmekk og gott menningarlæsi ætti tónleikadagskráin alltaf að verða jöfn þegar litið er til kynja.

Birtir mynd af kröfu­bréfinu og segist að­eins sjá eftir söngnum

Ólöf Tara Harðardóttir, einkaþjálfari og ein þeirra fimm sem fengu kröfubréf frá lögmanni tónlistarmannsins Ingólfs Þórarinssonar, segir að hennar eina eftirsjá sé að syngja og tralla við tónlist Ingólfs. Það sé eina afsökunarbeiðnin sem Ingólfur fái frá henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×