Erlent

Hissa á stór­furðu­legum leið­beiningum frá danska Co­vid-teyminu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Brynja Sveinsdóttir og Snorri Ástráðsson fluttu út til Kaupmannahafnar í nám nú í lok júlí.
Brynja Sveinsdóttir og Snorri Ástráðsson fluttu út til Kaupmannahafnar í nám nú í lok júlí. vísir/aðsend

Ungt ís­lenskt par, sem er ný­flutt til Kaup­manna­hafnar, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar starfs­maður danska Co­vid-teymisins til­kynnti þeim að vegna þess að þau væru bólu­sett þyrftu þau alls ekki að fara í ein­angrun. Þau gætu val­sað um götur Kaup­manna­hafnar ef þau pössuðu bara vel að þvo sér um hendur. Fyrir al­gjöra til­viljun var þetta leið­rétt af öðrum starfs­manni teymisins og þeim sagt að fara í ein­angrun.

Snorri Ást­ráðs­son og Brynja Sveins­dóttir fluttu út til Kaup­manna­hafnar í lok síðasta mánaðar. Þau greindust bæði smituð af Co­vid-19 á laugar­daginn, Brynja full­bólu­sett með Pfizer og Snorri með einn skammt af Jans­sen og auka­skammt af Pfizer.

Brynja fór að verða veik í lok síðustu viku og á­kvað að fara í hrað­próf sem reyndist já­kvætt. Þá drifu þau Snorri sig í PCR-próf, sem gefa öruggari niður­stöður, og reyndust bæði smituð.

Þið þurfið auðvitað ekkert að vera í einangrun

Þau fengu sím­tal frá danska Co­vid-teyminu á laugardagsmorgun þar sem þeim var til­kynnt um niður­stöðurnar og fengu þá ansi undar­legar upp­lýsingar um hvernig þau ættu að haga sínum málum smituð af Co­vid-19:

„Vegna þess að þið eruð full­bólu­sett þá þurfiði auð­vitað ekki að vera í ein­angrun,“ sagði starfs­maður Co­vid-teymisins við þau í sím­tali sem þau tóku upp og má sjá hér að neðan.

„Getum við þá bara farið út?“ spyr Brynja starfs­manninn þá, sem svarar játandi. „En þegar þið farið út verðið þið auð­vitað að þvo ykkur um hendur. Því að þið gætuð verið með eitt­hvað af veiru á höndunum,“ segir starfs­maðurinn.

Þetta fannst þeim heldur undar­legar upp­lýsingar. „Þessi kona var bara að bulla og bulla eitt­hvað í okkur. Við héldum þarna að það væri bara staðan í Dan­mörku að bólu­settir sem greindust með smit þyrftu ekkert að vera í ein­angrun,“ segir Snorri.

„Síðan fyrir al­gjöra til­viljun fáum við annað sím­tal, því Brynja er skráð með tvö síma­númer úti og það hafði eitt­hvað hliðrast til í kerfinu hjá þeim. Og við á­kveðum þá að spyrja hinn starfs­manninn sem hringir í okkur nánar út í þetta – hvort þetta hafi verið rétt hjá þeirri sem hringdi fyrst. Og þá var það auð­vitað bara alls ekki þannig. Hún skildi ekkert hvernig sú sem hringdi á undan hafi verið að fara með þessa vit­leysu við okkur.“

Þau eru nú bæði í ein­angrun í íbúð sinni, Brynja með væg ein­kenni en Snorri alveg ein­kenna­laus. „Ef við hefðum ekki fengið þetta seinna sím­tal sem kom fyrir slysni þá værum við bara á vappi um göturnar held ég,“ segir Snorri hlæjandi.

Þau segja alla mun ró­legri yfir far­aldrinum úti en hér heima. Þar eru stórar tón­listar­há­tíðir á dag­skránni á næstu dögum, barir opnir til tvö á næturnar og gríðar­lega margir safnist saman á götum úti, til dæmis fyrir stóra í­þrótta­við­burði.

Þar eru hraðprófin einnig mikið notuð og mikið um hraðprófsstöðvar á götum Kaupmannahafnar. 

Miklu vægari reglur um einangrun

Mikill munur er á reglum um ein­angrun í Dan­mörku og á Ís­landi, að minnsta kosti fyrir þá sem eru bólu­settir.

Þeir sem eru bólu­settir og ein­kenna­lausir þurfa að vera í ein­angrun í sjö daga en hinir sem eru bólu­settir og fá ein­kenni mega losna úr ein­angrun eftir að þeir hafa verið ein­kenna­lausir í 48 klukku­stundir. Þannig gæti Brynja losnað fyrr úr ein­angrun en Snorri, þó að hún hafi fengið ein­kenni en ekki hann.

„Það var alla­vega það sem þau sögðu okkur í seinna sím­talinu, þegar allt sem hin sagði var leið­rétt. Þá sagði hún mér að ég ætti að hugsa þetta eins og með flensu – að ef ég væri komin með það lítil ein­kenni að ég gæti hugsað mér að mæta í vinnuna eins og eftir venju­leg veikindi, þá ætti ég að bíða í tvo sólar­hringa í við­bót og gæti svo farið úr ein­angruninni,“ segir Brynja.

Á Ís­landi þurfa bólu­settir að vera í ein­angrun í alla­vega tíu daga og hafa verið ein­kenna­lausir í að minnsta kosti þrjá daga til að losna úr ein­angrun. Þetta gildir að­eins um þá sem urðu ekki mikið veikir, hinir sem eru bólu­settir og verða mikið veikir verða að vera í ein­angrun í fjór­tán daga eins og hinir óbólu­settu.

Hér á Ís­landi er líka mun betra eftir­lit með fólki í ein­angrun; það er reglu­lega hringt í þá sem eru smitaðir af læknum Co­vid-göngu­deildarinnar og til að losna úr ein­angrun þarf við­komandi að hafa verið út­skrifaður úr henni með sím­tali frá lækni.

„Það er ekkert svo­leiðis hér. Hér var það bara þetta sím­tal, það er að segja seinna sím­talið með réttum upp­lýsingum, og okkur var bara sagt að við yrðum að meta þetta sjálf með ein­kennin og svona. Við bara förum út ein­angrun þegar við teljum þetta eiga við okkur, það er enginn sem hringir í okkur og tékkar á okkur eða út­skrifar okkur," segir Snorri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×