Innlent

Kanna hvort eldgos sé hafið neðansjávar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Varðskipið Þór er á leiðinni á vettvang.
Varðskipið Þór er á leiðinni á vettvang. Vísir/Vilhelm

Varðskipið Þór hefur verið sent til þess að kanna hvort að eldgos sé hafið neðansjávar, vestur af Krísuvíkurbergi. Engin merki um eldgos sjást þó á mælum Veðurstofunnar.

Uppfært klukkan 00.11:  Engin merki um að neðansjávargos sé hafið fundust eftir að varðskipið Þór fór í eftirlitsleiðangur um svæðið.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni barst tilkynning um að bólstrar sæjust stíga upp úr hafinu vestur af Krísuvíkurbergi. Eftir að lögregla var send til að fylgja á eftir tilkynningunni var ákveðið að senda varðskipið Þór á vettvang, en það var statt við reglubundið eftirlit í grennd við Þorlákshöfn.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Vísi að líklega séu um tveir til þrír tímar þangað til Þór kemst á staðinn til að kanna málið.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er nú verið að kanna frá öllum vinklum hvort að eldgos sé hafið neðansjávar, en þó hefur ekki hefur orðið vart við jarðhræringar á svæðinu á mælum Veðurstofunnar samkvæmt upplýsingum þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×