Íslenski boltinn

Sjáðu enn eina markaveisluna sem Blikar buðu til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik hefur skorað 22 mörk í sjö heimaleikjum í Pepsi Max-deild karla í sumar.
Breiðablik hefur skorað 22 mörk í sjö heimaleikjum í Pepsi Max-deild karla í sumar. vísir/Hafliði Breiðfjörð

Breiðablik bauð upp á enn eina markaveisluna á Kópavogsvelli þegar liðið sigraði Víking, 4-0, í fyrsta leik 15. umferðar Pepsi Max-deildar karla í gær.

Þetta var fimmti 4-0 sigur Blika á heimavelli í sjö deildarleikjum í sumar. Breiðablik er langmarkahæsta lið deildarinnar með 33 mörk.

Víkingur hefði getað komist á topp deildarinnar með sigri í leiknum í gær og gestirnir byrjuðu betur. En um miðbik fyrri hálfleik náðu heimamenn tökum á leiknum og þeir komust yfir á 34. mínútu þegar Jason Daði Svanþórsson skoraði með góðu skoti í fjærhornið.

Mosfellingurinn ungi var aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar þegar hann skoraði af stuttu færi eftir að Þórður Ingason varði aukaspyrnu Höskuldar Gunnlaugssonar. Jason Daði er orðinn markahæsti leikmaður Blika í deildinni með sex mörk.

Klippa: Breiðablik 4-0 Víkingur

Breiðablik kláraði svo leikinn með tveimur mörkum í upphafi seinni hálfleiks. Á 48. mínútu skoraði Viktor Örn Margeirsson með skalla eftir fyrirgjöf Höskuldar og sjö mínútum síðar ýtti Gísli Eyjólfsson boltanum yfir línuna eftir undirbúning Jasons Daða.

Með sigrinum komst Breiðablik upp í 3. sæti deildarinnar. Blikar eru með 26 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Valsmanna sem mæta KR-ingum annað kvöld. Víkingar eru áfram í 2. sætinu með 29 stig.

Mörkin úr leik Breiðabliks og Víkings má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Arnar: Þetta er yndislegur leikur smáatriða

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sagði að sínir menn hefðu misst móðinn eftir að Breiðablik náði forystunni í leik liðanna í kvöld. Hann hélt þó í jákvæðnina og hrósaði Blikum fyrir frammistöðu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×