Íslenski boltinn

Blikar búnir að vinna síðustu sex hundruð mínútur í Smáranum 22-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikar fagna seinna marki Jasons Daða Svanþórssonar en strákurinn var með tvö mörk og eina stoðsendingu í leiknum í gærkvöldi.
Blikar fagna seinna marki Jasons Daða Svanþórssonar en strákurinn var með tvö mörk og eina stoðsendingu í leiknum í gærkvöldi. Hafliði Breiðfjörð

Blikar héldu áfram í gær ótrúlegri sigurgöngu sinni á Kópavogsvellinum þegar Víkingar steinlágu 4-0 í fyrsta leik fimmtándu umferðar Pepsi Max deildar karla.

Blikar hafa nú unnið sex síðustu heimaleiki sína í Pepsi Max deildinni með markatölunni 22-0.

Kópavogsliðið hefur ekki fengið á sig mark í þessum sex heimaleikjum og hafa á sama tíma skorað 3,7 mörk að meðaltali í leik sem er mögnuð tölfræði af góðum varnarleik og beittum sóknarleik.

Alls eru 615 mínútur liðnar síðan að KR-ingar komust í 2-0 á Kópavogsvellinum í fyrstu umferð en síðan hafa Blikar skorað 22 mörk í röð í heimaleikjum sínum án þess að mótherjar þeirra hafa náð að svara fyrir sig.

Blikarnir sem hafa skorað þessi 22 mörk án þess að andstæðingarnir hafa svarað eru Kristinn Steindórsson (4 mörk), Thomas Mikkelsen (3), Viktor Örn Margeirsson (3), Árni Vilhjálmsson (3), Jason Daði Svanþórsson (3), Gísli Eyjólfsson (3), Viktor Karl Einarsson (2) og Höskuldur Gunnlaugsson.

Það vekur líka athygli að Blikarnir hafa unnið fimm af þessum sex leikjum með markatölunni 4-0 þar af þá þrjá síðustu á móti FH, Leikni og Víkingi.

  • Síðustu sex heimaleikir Breiðabliks í Pepsi Max deildinni:
  • 4-0 sigur á Keflavík
  • 4-0 sigur á Stjörnunni
  • 2-0 sigur á Fylki
  • 4-0 sigur á FH
  • 4-0 sigur á Leikni R.
  • 4-0 sigur á Víkingi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×