Handbolti

Bitter skellti í lás og strákarnir hans Alfreðs unnu mikilvægan sigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Johannes Bitter varði eins og óður maður á lokakaflanum í leik Þýskalands og Noregs.
Johannes Bitter varði eins og óður maður á lokakaflanum í leik Þýskalands og Noregs. getty/Dean Mouhtaropoulos

Þýskaland fór langt með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókyó með sigri á Noregi, 28-23, í dag.

Strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust nokkrum sinnum fimm mörkum yfir. Norðmenn náðu aðeins að rétta sinn hlut undir lok fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum var 14-11, Þjóðverjum í vil.

Noregur minnkaði muninn í eitt mark, 16-15, en Þýskaland svaraði með 5-1 kafla og náði fimm marka forskoti, 21-16.

Norðmenn minnkuðu muninn aftur í eitt mark, 22-21, en þá var komið að Johannes Bitter. Gamla brýnið átti frábæra innkomu og varði fyrstu sex skotin sem hann fékk á sig. Andreas Wolff hafði varið vel í fyrri hálfleik og undir lokin tók Bitter við keflinu.

Þökk sé frammistöðu hans héldu Þjóðverjum Norðmönnum í hæfilegri fjarlægð og unnu á endanum fimm marka sigur, 28-23.

Uwe Gensheimer skoraði sex mörk fyrir Þýskaland og Timo Kastening fimm. Gensheimer er nú orðinn markahæsti leikmaður í sögu þýska landsliðsins en hann hefur tekið fram úr Christian Schwarzer. Gensheimer hefur skorað 972 landsliðsmörk.

Sander Sagosen var markahæstur í norska liðinu með sjö mörk. Magnus Jondal skoraði fjögur mörk.

Með sigrinum komst Þýskaland upp fyrir Noreg í 3. sæti A-riðils. Þjóðverjar mæta Brasilíumönnum í lokaumferð riðlakeppninnar á sunnudaginn.

Danir eru með fullt hús stiga í B-riðli eftir sigur á Portúgölum, 28-34. Mikkel Hansen skoraði níu mörk fyrir Danmörku og Mathias Gidsel sjö. Diego Branquinho skoraði fjögur mörk fyrir Portúgal.

Egyptaland skaust upp fyrir Svíþjóð í 2. sæti B-riðils með sigri í leik liðanna í morgun, 22-27.

Mohamed Sanad skoraði sex mörk fyrir egypska liðið og Yahia Omar fimm. Lukas Pellas skoraði sjö mörk fyrir Svía.

Úrslit dagsins

A-riðill

  • Frakkland 36-31 Spánn
  • Þýskaland 28-23 Noregur
  • Argentína 23-25 Brasilía

B-riðill

  • Portúgal 28-34 Danmörk
  • Svíþjóð 22-27 Egyptaland
  • Barein 32-30 Japan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×