Sport

Úti­lokar ekki að Ólympíu­leikunum verði af­lýst á síðustu stundu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Toshiro Muto, framkvæmdarstjóri leikanna, hefur ekki tekið fyrir að leikunum verði aflýst.
Toshiro Muto, framkvæmdarstjóri leikanna, hefur ekki tekið fyrir að leikunum verði aflýst. Yuichi Yamazaki/Getty Images

Tíu til viðbótar hafa greinst með kórónuveiruna í Ólympíuþorpinu á undanförnum sólahring. Heildarfjöldi smitaðra er kominn upp í 68 talsins og framkvæmdarstjóri leikanna hefur ekki útilokað að þeim verði aflýst á síðustu stundu.

Ólympíuleikarnir hefjast í vikunni en þeir fara fram í Tókýó í Japan. Mikil aukning hefur orðið á smitum í borginni og því hefur til að mynda verið gripið til þess ráðs að halda leikina án áhorfenda.

Nú hefur Toshiro Muto, yfirmaður skipulagsnefndar ÓL, sagt að hann ætli ekki að útiloka að leikunum veðri aflýst á síðustu stundu. Þetta kemur fram á Sky Sports skömmu eftir að staðfest var að tíu ný smit hefðu greinst í Ólympíuþorpinu. Heildarfjöldi smita í þorpinu er því kominn upp í 68 talsins.

„Við getum ekki séð fyrir hvað gerist varðandi fjölda smita en við munum halda áfram að ræða saman ef það verður mikil aukning. Við munum ræða það ef það gerist,“ sagði Muto.

Thomas Bach, forseti Alþjóða Ólympíusambandsins, þvertekur fyrir orð Muto og segir að aldrei hafi komið til greina að aflýsa leikjunum.

Ljóst er að ekki eru allir sammála hvað gera skal en leikarnir hefjast nú á föstudaginn, þann 23. júlí. Ísland á fjóra keppendur á leikunum, það eru þau Guðni Valur Guðnason, Ásgeir Sigurgeirsson, Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×