Sport

Smit í Ólympíuþorpinu vekur áhyggjur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frá Tókýó.
Frá Tókýó. Rob Carr/Getty Images)

Mótshaldarar Ólympíuleikana í Japan hafa staðfest smit í Ólympíuþorpinu en fjölmiðlar greina frá þessu í morgun. Smitið kom upp innan veggja Ólympíuþorsins.

Toshiro Muto, framkvæmdastjóri leikanna, segir að utanaðkomandi aðili, sem komi að leikunum, hafi smitast en hann vildi ekki gefa upp hlutverk hins smitaða né hvaðan hann kæmi.

Hinn smitaði reyndist neikvæður við komuna til Japan en test hans reyndist svo jákvætt er komið var í Ólympíuþorpið. Áður höfðu forsvarsmenn keppninnar sagt að þorpið yrði öruggasti staðurinn en svo er greinilega ekki.

Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, sagði á dögunum að leikarnir yrðu tryggir og öruggir en það er ljóst að smitið sem kom upp í þorpinu í gær vekur upp áhyggjur hjá keppendum.

Ólympíuleikunum var frestað um eitt ár. Þeir áttu að fara fram síðasta sumar en var frestað til sumarsins 2021 en íþróttafólk er byrjað að koma til Tókýó þar sem leikarnir hefjast þann 23. júlí og standa til 8. ágúst.

Fjórir íslenskir keppendur verða á leikunum. Ásgeir Sigurgeirsson í skotfimi, Guðni Valur Guðnason í kringlukasti og þau Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir sem keppa í sundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×