Golf

Hársbreidd frá vallarmeti og er með þriggja högga forskot

Sindri Sverrisson skrifar
Collin Morikawa veltir fyrir sér pútti á Opna breska í dag þar sem hann lék stórkostlegt golf.
Collin Morikawa veltir fyrir sér pútti á Opna breska í dag þar sem hann lék stórkostlegt golf. AP/Peter Morrison

Hinn 24 ára gamli Collin Morikawa er kominn í baráttuna um að vinna sitt annað risamót á ferlinum eftir stórkostlega spilamennsku á öðrum degi Opna breska meistaramótsins í golfi í dag.

Efstu kylfingar gærdagsins hefja brátt keppni og þurfa að vinna upp forskot Morikawa sem er orðinn efstur eftir að hafa leikið á sex höggum undir pari í dag.

Morikawa var hársbreidd frá því að jafna vallarmetið á Royal St George vellinum, sem er 63 högg, en lokapúttið hans í dag fór naumlega ekki ofan í. Hann fékk alls sjö fugla og einn skolla á hringnum en paraði tíu holur.

Morikawa er nú samtals á -9 höggum, þremur höggum á undan Suður-Afríkumönnunum Daniel Van Tonder og Louis Oosthuizen.

Oosthuizen, og þeir Jordan Pieth og Brian Harman sem léku á -5 höggum í gær, eiga hins vegar eftir að hefja leik í dag líkt og margir fleiri.

Hinn 25 ára gamli Will Zalatoris hefur hins vegar neyðst til að hætta keppni vegna meiðsla. Zalatoris varð í 2. sæti á Opna bandaríska mótinu í apríl en hann lék á höggi undir pari í gær.

Bein útsending frá mótinu er á Stöð 2 Golf en útsendingartíma má finna hér. Mótinu lýkur á sunnudag.


Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum. Helgarpassa að Stöð 2 Golf má kaupa á kerfum Vodafone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×