Sport

Fékk þær fréttir á sex ára afmælinu að Djokovic kæmi á Ólympíuleikana

Sindri Sverrisson skrifar
Hinn umdeildi en afburðagóði Novak Djokovic verður með á Ólympíuleikunum.
Hinn umdeildi en afburðagóði Novak Djokovic verður með á Ólympíuleikunum. EPA-EFE/NEIL HALL

Serbinn Novak Djokovic ætlar að vera með á Ólympíuleikunum í Tókýó og mun þannig freista þess að verða fyrsti karl sögunnar til að vinna „gullalslemmuna“ með því að vinna Ólympíugull og öll fjögur risamótin í tennis á sama ári.

Einn sá fyrsti til að fá þær fréttir að Djokovic væri á leið til Tókýó var hinn ungi Kojiro Owaki. Í sex ára afmælisgjöf fékk hann kveðju frá Djokovic þar sem Serbinn sagðist vonast til þess að sjá Owaki í Tókýó. Djokovic hefur áður skipst á skilaboðum við Owaki og föður hans, og gefið ráð varðandi tennisíþróttina.

„Ég get ekki brugðist unga vini mínum Kojiro. Ég bókaði flug til Tókýó og verð stoltur fulltrúi Serbíu á Ólympíuleikunum,“ skrifaði Djokovic á Twitter.

Djokovic vann Wimbledon-mótið á sunnudaginn og hefur þar með unnið 20 risamót á ferlinum. Eftir mótið kvaðst hann ekki viss um hvort hann myndi keppa á Ólympíuleikunum en nú er orðið ljóst að hann verður með.

Djokovic hafði áður unnið Opna franska og Opna ástralska mótið á þessu ári. Vinni hann gull í einliðaleik á Ólympíuleikunum og svo Opna bandaríska mótið mun hann afreka eitthvað sem engum tenniskarli hefur tekist, og leika sama leik og Steffi Graf hefur ein kvenna gert, árið 1988.

Roger Federer, Rafael Nadal, Dominic Thiem og Nick Kyrgios eru á meðal þeirra tennisspilara sem hafa ákveðið að taka ekki þátt á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×