Fótbolti

Hlakkar til að styðja liðsfélagana til sigurs á Wembley

Valur Páll Eiríksson skrifar
Spinazzola ætlar að launa liðsfélögunum fyrir söngva þeirra til hans eftir sigurinn á Spáni.
Spinazzola ætlar að launa liðsfélögunum fyrir söngva þeirra til hans eftir sigurinn á Spáni. Claudio Villa/Getty Images

Leonardo Spinazzola, leikmaður Roma og ítalska landsliðsins í fótbolta, átti frábært Evrópumót með ítalska liðinu áður en hann meiddist illa í 8-liða úrslitum gegn Belgum. Hann kveðst spenntur fyrir úrslitaleik mótsins milli Englands og Ítalíu á morgun.

Spinazzola fór mikinn í vinstri bakvarðarstöðunni hjá þeim ítölsku áður en hann var borinn meiddur af velli gegn Belgum. Í ljós kom að um hásinarslit væri að ræða og hann því ekki aðeins frá út mótið, heldur næstu sex mánuðina. Hann er þó ekki af baki dottinn og hlakkar til úrslitaleiksins á morgun.

„Getum við klárað þetta? Ég vona það, þetta verður 50/50. Þeir eru mjög sterkir, með góða einstaklinga og frábæran bekk. Þeir eru með sterka vörn og þetta verður erfiður leikur, en við erum með frábæran hóp og getum klárað þetta. Ég get ekki beðið eftir að hitta liðsfélagana í Lundúnum,“ sagði Spinazzola í viðtali við Gazzetta dello Sport í gær.

„Ég fer til Lundúna á laugardaginn [í dag] fyrir úrslitaleikinn við England, og ég hef sjaldan verið eins spenntur. Ég beið í tvo klukkutíma til að þakka liðsfélögunum fyrir sigurinn á Spáni, og þeir sungu söngva um mig í rútunni. Það kallaði fram ótrúlegar tilfinningar og þá hlakkaði ég til að styðja þá til sigurs í úrslitaleiknum,“ sagði Ítalinn enn fremur.

Úrslitaleikur Ítalíu og Englands hefst klukkan 19:00 á Wembley í Lundúnum annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 EM og Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leik hefst klukkan 18:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×