Sport

Íslandsmeistarinn fagnaði sigri og lék hring með Game of Thrones-stjörnu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Blær Örn Ásgeirsson Folf
Mynd/DiscGolf

Blær Örn Ásgeirsson, Íslandsmeistari í frisbígolfi, eða folfi, vann í dag sigur á PCS Sula Open, sterku móti í Noregi. Á fyrsta hring mótsins var frægur heimamaður í ráshópi Blæs.

Frisbígolfsamband Íslands vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni líkt og sjá má í meðfylgjandi færslu. Í spilahópi Blæs var enginn annar en norski stórleikarinn Kristofer Hivju sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Tormund Giantsbane í þáttunum Game of Thrones, en hefur einnig leikið í myndinni Fate of the Furious.

Hivju er mikill folfmaður og tekur reglulega þátt í alþjóðlegum mótum þegar hann hefur tíma til. Hann hefur verið skráður leikmaður hjá sambandi atvinnufolfara, PDGA, síðan í fyrra og hefur tekið þátt í fjórum mótum á þeim tíma.

Þrátt fyrir aðeins 18 ára aldur, hefur Blær unnið Íslandsmótið í folfi síðustu tvö ár og er efstur Íslendinga á styrkleikalista PDGA. Hann gerði sér lítið fyrir og vann öruggan sigur á mótinu í Noregi um helgina þar sem hann lauk keppni á 20 undir pari eftir hringina fjóra, sjö á undan næsta manni, Peter Lunde sem á 13 undir parinu.

Ekki gekk eins vel hjá Hivju, sem lauk keppni á 96 höggum yfir pari, í 108. sæti af 116 keppendum. Vert er að taka fram að aðeins átta keppendur af 116 voru undir pari vallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×