Erlent

Heimilis­of­beldi í Eng­landi eykst um 38 prósent þegar enska liðið tapar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Úr herferð National Center for Domestic Violence. Blóðinu er smurt annig að það líkist enska fánanum.
Úr herferð National Center for Domestic Violence. Blóðinu er smurt annig að það líkist enska fánanum. National Center for Domestic Violence

Umfangsmikil herferð gegn heimilisofbeldi hefur farið af stað í Englandi vegna þátttöku Englands á Evrópumeistaramótinu í fótbolta. Englandi hefur gengið nokkuð vel í keppninni og mun leika til úrslita gegn Ítalíu á mótinu á sunnudaginn næsta.

Öll helstu samtök gegn heimilisofbeldi á Englandi hafa hins vegar farið í herferð gegn heimilisofbeldi í ljósi fótboltaleikjanna. Í herferð Refuge, samtaka fyrir börn og konur sem eru þolendur heimilisofbeldis, kemur meðal annars fram að heimilisofbeldi aukist um 26 prósent eftir að England vinnur landsliðsleiki og um 38 prósent þegar England tapar leikjum.

„Konur sem lifa við heimilisofbeldi eru hræddar alla daga og þó fótboltamót valdi ekki ofbeldi eru þau notuð sem afsökun af gerendum til að auka ofbeldið,“ segir í tísti frá Refuge sem var birt á miðvikudaginn, fyrir leik Englands og Danmerkur í undanúrslitunum.

„Það hlakka ekki allir til leiksins í kvöld… Heimilisofbeldi eykst um 26% þegar England spilar og um 38% þegar það tapar,“ segir í Facebook-færslu Heimilisofbeldismiðstöðvar Bretlands (NCDV).

Með færslunni fylgir áhrifamikil mynd sem sýnir konu með blóðkross í andlitinu, sem minnir á enska fánann.

Þá hafa margar herferðanna byggt á söngnum „It‘s coming home,“ sem fótboltabullur í Englandi hafa sungið undanfarnar vikur. Lagið er hvatning, eða raun bæn, um að England sigri mótið en enska landsliðið hefur ekki sigrað stórmót frá árinu 1966.

Lagið var gefið út árið 1996 og er í flutningi Baddiel, Skinner og Lightning Seeds, og ber upphaflega heitið Three Lions. Lagið var gefið út í aðdraganda Evrópumótsins í fótbolta 1996 sem haldið var í Englandi.

Aðgerðasinninn Charrissa Cooke birti myndband á TikTok á dögunum þar sem hún breytir textanum og skrifar: „Hann er að koma heim“ í stað „Fótboltinn er að koma heim.“

Þá hefur Refuge líka snúið upp á lagið og má sjá í auglýsingum frá samtökunum „It‘s coming home“ nema búið er að stroka yfir orðið „coming.“ Skilaboðin eru því: „Það er heima.“


Tengdar fréttir

„Football's diving home“

Sálfræðihernaðurinn fyrir úrslitaleik Englands og Ítalíu er hafinn þar sem Ítalarnir hafa meðal annars breytt frægum söng þeirra ensku.

Ítalía lík­legri til að vinna EM

Samkvæmt tölfræðilíkani Stats Perform er Ítalía töluvert líklegri til að vinna Evrópumótið í knattspyrnu heldur England. Úrslitaleikurinn fer fram á Wembley í Lundúnum á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×