Fótbolti

„Ríkasti dómari heims“ fékk úrslitaleik EM

Sindri Sverrisson skrifar
Björn Kuipers hefur staðið sig það vel í sínum þremur leikjum til þessa á EM að hann fær að dæma úrslitaleikinn.
Björn Kuipers hefur staðið sig það vel í sínum þremur leikjum til þessa á EM að hann fær að dæma úrslitaleikinn. EPA/David Ramos

Hollendingurinn Björn Kuipers fær það eftirsótta hlutverk að dæma úrslitaleik Evrópumótsins í fótbolta á sunnudagskvöld, á milli Englands og Ítalíu á Wembley.

Kuipers, sem er 48 ára gamall, verður fyrsti Hollendingurinn sem fær að dæma úrslitaleik á EM. Hann hefur verið kallaður „ríkasti dómari heims“ eftir að hafa tekið þátt í stofnun matvöruverslanakeðju í heimalandinu. Samkvæmt Daily Mail var hann metinn á 11,5 milljónir punda árið 2016.

Þessi margreyndi dómari hefur áður dæmt leik Englands og Ítalíu á stórmóti en það var á heimsmeistaramótinu í Brasilíu árið 2014. Liðin mættust þá í riðlakeppninni og vann Ítalía 2-1 sigur, en bæði lið sátu eftir í riðlinum á meðan að Kosta Ríka og Úrúgvæ komust áfram.

Kuipers hefur dæmt þrjá leiki á EM til þessa. Hann dæmdi í 2-1 sigri Belgíu gegn Danmörku, 5-0 sigri Spánar gegn Slóvakíu og svo 2-1 sigri Danmerkur gegn Tékklandi í átta liða úrslitum.

Kuipers hefur áður dæmt úrslitaleiki fyrir UEFA. Hann dæmdi úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 2014, á milli Real Madrid og Atlético Madrid, og úrslitaleiki Evrópudeildarinnar árið 2013 og 2018.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×