Erlent

Lýsa yfir neyðar­á­standi í Tókýó fram yfir Ólympíu­leikana

Atli Ísleifsson skrifar
Yoshihide Suga er forsætisráðherra Japans.
Yoshihide Suga er forsætisráðherra Japans. EPA

Stjórnvöld í Japan hafa lýst yfir neyðarástandi í höfuðborginni Tókýó fram yfir Ólympíuleikana sem fram fara í borginni dagana 23. júlí til 8. ágúst. Þetta staðfesti forsætisráðherrann Yoshihide Suga í dag.

Suga segir að neyðarástandið mun taka gildi á mánudaginn 12. júlí og til 22. ágúst.

Ákvörðunin þýðir að japönsk yfirvöld fái auknar heimildir til að stjórna aðsókn áhorfenda að leikunum og kann svo að fara að einhverjar keppnir muni jafnvel fara fram án áhorfenda.

DPA segir frá því að Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, komi til Tókýó í dag og að viðræður muni fari fram um hvort eða að hve miklu leyti áhorfendum verði hleypt að keppnum.

Einungis um 15 prósent Japana teljast nú fullbólusettir gegn kórónuveirunni. Greint var frá því í morgun að 920 manns hafi greinst með kórónuveiruna í Tókýó í gær og er um að ræða mesta fjöldann í höfuðborginni síðan 13. maí. 

Um 30 prósent þeirra sem hafa greinst með veiruna í Japan síðustu daga hafa verið með hið svokallaða delta-afbrigði veirunnar.

Íbúar Tókýó telja um 14 milljónir manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×