Fótbolti

Declan Rice hafði tvöfalda ástæðu til að fagna í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Declan Rice fagnar sigrinum á Dönum með Kalvin Phillips en þeir hafa verið frábærir saman á miðju enska liðsins í keppninni.
Declan Rice fagnar sigrinum á Dönum með Kalvin Phillips en þeir hafa verið frábærir saman á miðju enska liðsins í keppninni. AP/Carl Recine

Declan Rice og félagar í enska landsliðinu tryggðu sér sæti í úrslitaleik Evrópumótsins í fótbolta í gær en þetta voru ekki einu góðu fréttirnar fyrir fjölskyldu hans það kvöld.

Rice varð nefnilega frændi á sama tíma og England var að vinna Danmörku í framlengingunni. Bróðir hans og kona hans eignuðust dóttur í gærkvöldi.

Leikmaður West Ham frétti af frænku sinni sem kom í heiminn á sama tíma og Harry Kane skoraði sigurmark enska landsliðsins í leiknum.

„Bróðir minn eignast barn á sama tíma og við skoruðu seinna markið. Hann grætur af gleði eftir að eignast litla dóttur. Þetta kvöld er svo sannarlega sérstakt,“ sagði Declan Rice við breska ríkisútvarpið eftir leikinn.

„Fyrsti úrslitaleikurinn síðan 1966. Ég vil svo mikið geta þetta fyrir fólkið heima. Ég er líka stuðningsmaður og ég vildi óska þess að ég væri að fagna með þeim. Við höfum samt ekki unnið neitt ennþá. Ítalir eru með frábært lið en við mætum tilbúnir,“ sagði Rice.

Declan Rice er leikmaður West Ham en margir spá að svo verði ekki mikið lengur. Hann hefur ekki viljað skrifað undir nýjan samning við félagið og vitað er af áhuga stóru liðanna í Englandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×