Erlent

Raf­hlaupa­hjóla­leigur í Osló taka hjólin úr um­ferð á nóttunni um helgar

Atli Ísleifsson skrifar
Alls eru níu rafhlaupahjólaleigur með starfsleyfi í Osló.
Alls eru níu rafhlaupahjólaleigur með starfsleyfi í Osló. Getty

Norsku rafhlaupahjólaleigurnar Bolt og Ryde hafa ákveðið að slökkva á öllum rafhlaupahjólum sínum í landinu á þeim tíma vikunnar þegar slys tengd hjólunum eru flest, það er milli miðnættis og klukkan fimm á morgnana aðfaranætur laugardags og sunnudags.

Þetta gerist í kjölfar mikillar umræðu í landinu um slys á fólki sem notast við rafhlaupahjól. Vöruðu læknar í Osló í gær sérstaklega við notkun slíkra hjóla á nóttunni þegar margir nota þau ekki allskostar allsgáðir. Sýndi rannsókn að 75 prósent notenda hjólanna á nóttunni um helgar væru ölvaðir.

Læknarnir sögðu sömuleiðis frá því að í nýliðnum júnímánuði hafi fjórtán manns að meðaltali þurft að leita á slysadeild í Osló vegna slysa tengdum rafhlaupahjólum.

Norskir fjölmiðlar segja frá því að ákvörðun leiganna taki gildi um komandi helgi, það er á miðnætti á föstudagskvöld. Ryde hyggst sömuleiðis lækka hármarkshraða hjólanna milli klukkan 23 og þar til að slökkt verður á þeim, úr 20 kílómetra á klukkustund og niður í 15.

Alls eru níu rafhlaupahjólaleigur með starfsleyfi í Osló: Voi, Tier, Bird, Wind Mobility, Bolt, Light Bikes (Donkey republic), Ryde, Lime og We Mobility.

Forsvarsmenn einhverra rafhlaupahjólaleiga, sem eru með starfsleyfi í Osló, hafa sagst ekki munu fylgja fordæmi Ryde og Bolt og munu áfram hafa hjólin í umferð.


Tengdar fréttir

Banna Hopp um helgar vegna fyllerís? Ekki séns, segir djammið

Eftir að hugmyndir komu fram um að banna leigu á rafhlaupahjólum um helgar vegna ölvunar brugðust margir við og bentu á að það væri líklega ekki lausnin. Nú hefur Stöð 2 rætt við fjölbreytta fulltrúa næturlífsins og þeir taka í sama streng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×