Erlent

Maður bitinn af slöngu meðan hann gekk örna sinna

Árni Sæberg skrifar
Kyrkislanga af sömu tegund og sú sem beit Austurríkismanninn.
Kyrkislanga af sömu tegund og sú sem beit Austurríkismanninn. Anna Sass/Getty

Maður á sjötugsaldri í borginni Graz í Austurríki varð fyrir því óláni á dögunum að vera bitinn í klofið af kyrkislöngu sem faldi sig í klósetti hans.

Maðurinn segist hafa „fundið fyrir sting í klofsvæðinu“ áður en hann leit niður og sá 1,6 metra langa kyrkislöngu ofan í klósettinu.

Maðurinn þurfti læknisaðstoð vegna smávægilegra áverka.

Slangan er talin hafa komist í klósett mannsins í gegn um pípulagnir en 24 ára gamall nágranni mannsins heldur 11 slöngur og hefur játað að eiga slönguna. Lögreglan hefur hann undir rannsókn grunaðan um að hafa valdið líkamsmeiðingum af gáleysi.

Skriðdýrasérfræðingur fangaði slönguna, þreif hana og skilaði henni til eiganda síns.

Slangan er kyrkislanga af tegundinni malayopython reticulatus en þær geta orðið allt að níu metra langar og eru stærstu slöngur í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×