Körfubolti

KR gert að greiða Kristófer tæpar 4 milljónir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kristófer í leik með núverandi liði sínu, Val, gegn KR.
Kristófer í leik með núverandi liði sínu, Val, gegn KR. Vísir/Bára

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag körfuknattleiksdeild KR til að greiða Kristófer Acox, landsliðsmanni og fyrrum leikmanni KR, tæpar 3,8 milljónir króna í vangoldin laun. Auk þess var KR gert að greiða málskostnað Kristófers.

Kristófer stefndi KR vegna launagreiðslna frá 1. júlí 2019 þar til að samningi hans við KR var slitið í lok ágúst 2020. Dómurinn kveður á um að KR greiði Kristófer rúmar 10,8 milljónir króna en þegar hafði KR greitt rúmar sjö milljónir inn á höfuðstól þeirrar skuldar. Eftir stóðu 3.783.056 krónur sem KR skuldar Kristófer, auk málskostnaðar hans upp á 1,4 milljónir.

Fram kemur í dómnum að KR hafi aldrei, á meðan samningnum stóð, greitt laun Kristófers á réttum tíma og aðeins einu sinni hafi hann fengið 600 þúsund króna mánaðarlaun sín greidd í einu lagi.

KR fór fram á að upphæðin yrði lækkuð vegna meiðsla Kristófers á tímabilinu sem um ræðir. KR benti á að Kristófer hefði verið meiddur á ökkla 4. maí til 17. október 2019, glímt við veikindi frá 29. nóvember 2019 til 9. janúar 2020, og verið frá vegna ökklaaðgerðar frá 9. janúar til 29. júní 2020. Ekki var fallist á þá kröfu KR um lækkun kröfunnar.

Uppfært: Áður hafði verið tekið fram að KR skuldaði Kristófer tæpar 11 milljónir en það hefur verið leiðrétt hér með, þar sem KR hafði greitt sjö af þeim milljónum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×