Innlent

Skjálfta­hrina hófst við Blá­fjöll í nótt

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Um fimm­tíu skjálftar hafa mælst austan Blá­fjalla síðan í nótt.
Um fimm­tíu skjálftar hafa mælst austan Blá­fjalla síðan í nótt. vísir

Skjálfta­hrina er nú í gangi við Þrengsli austan Blá­fjalla í nótt. Um fimm­tíu skjálftar hafa mælst þar frá mið­nætti en þeir hafa allir verið í smærra lagi.

Veður­stofan segir að engar til­kynningar hafi borist frá fólki sem hefur fundið fyrir skjálftunum. Sá stærsti hingað til mældist 2,3 að stærð og varð rétt fyrir klukkan átta í morgun.

Í sam­tali við Vísi segir jarð­skjálfta­fræðingur Veður­stofunnar erfitt að setja skjálfta­hrinuna í sam­hengi við eld­gosið í Geldinga­dölum eða þá skjálfta­virkni sem hefur verið í gangi þar síðasta rúma ár.

„Þetta er náttúru­lega bara þekkt jarð­skjálfta­svæði og það er búin að vera á­gætis­virkni á Reykja­nes­skaganum. Fyrir helgi var hún aðal­lega við Reykja­nes­tá og svo höfum við fengið ein­hverja skjálfta við Kleifar­vatn. Þannig þetta hoppar dáldið fram og til baka.“

Nú mælast skjálftarnir mun austar, við Þrengslin. Það er enn austar en svæðið við Brenni­steins­fjöll þar sem menn höfðu varað við að gæti komið risa­skjálfti, allt að stærð 6,5, þegar jarð­hræringarnar voru í gangi á Reykja­nes­skaganum fyrir gos.

Jarð­skjálfta­fræðingur Veður­stofunnar segir að gosið hafi ekki út­rýmt á­hyggjum af stórum skjálfta í Brenni­steins­fjöllum:

„Það er mikil spenna á því svæði sem á eftir að losna. Hún á eftir að losna en það er bara spurning um hve­nær. Það er mjög langt síðan það voru stórir skjálftar þarna.“ Það var síðast árið 1968 að mældist jarð­skjálfti af stærð 6,0 við brenni­steins­fjöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×