Skoðun

Hvað eiga veiði­gjöldin að vera há?

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Upphæð veiðigjalds hefur um langt skeið verið þrætuepli manna á meðal. Er það of lágt eða er það of hátt? Það er erfitt að segja án þess að hafa mælistiku sem hægt er að sammælast um.

Samkvæmt markmiðum laga um veiðigjald skal það standa m.a. undir þeim kostnaði sem til fellur við að halda utan um þetta kerfi, svo sem rannsóknum og eftirliti.

Eins og staðan er núna þá nær veiðigjaldið ekki að standa undir kostnaði ríkisins við að reka þetta kerfi. Þar er að minnsta kosti kominn vísir að mælistiku. Einnig hafa umræðurnar snúist um sanngjarna skiptingu auðlindarentunnar á milli eiganda auðlindarinnar og rétthafa.

Hversu mikið er útgerðin í raun og veru tilbúin til að greiða fyrir það leyfi að veiða í íslenskri lögsögu þar sem öllum hinum er haldið í burtu frá takmarkaðri auðlind?

Einfaldar spurningar

Ein leið er að spyrja einfaldra spurninga: Hvað myndi gerast ef ríkið myndi hætta með kvótakerfið og gefa öllum íslenskum ríkisborgurum leyfi til að veiða fisk innan landhelginnar án takmarkana? Hversu mikið væru núverandi leyfishafar tilbúnir til að greiða fyrir að svo verði ekki?

Svarið við fyrri hlutanum er nokkuð ljóst:, það myndi leiða til ofveiði og hagnaður greinarinnar myndi hverfa tiltölulega fljótt. Svarið við hinni er ekki alveg eins augljóst en ég er nokkuð viss um að kvótaeigendur sæju sér hag í því að greiða meira en þeir hafa gert undanfarna áratugi í veiðigjald.

Það er munur á vilja og getu

Eitt af því sem er kennt í viðskiptafræðum er að verðleggja ekki þjónustu út frá kostnaði við að veita hana heldur út frá því hvað viðskiptavinurinn er tilbúinn til að greiða fyrir hana.

Til að forðast misskilning þá geri ég greinarmun á því hvað viðkomandi vilji greiða og því hvað hann er tilbúinn að greiða. Þar er stór munur á.

Besta leiðin til að kanna hversu hátt aðilar á markaði eru tilbúnir til að greiða fyrir vöru, þjónustu eða leyfi er með því að leyfa aðilum á markaði að bjóða í. Væntanlega liggur sanngjarnt verð einhvers staðar á milli greiðsluvilja og greiðslugetu.

Er ekki kominn tími til að kanna það?

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×