Innlent

Bjarni var aldrei rannsakaður

Snorri Másson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var aldrei til rannsóknar hjá lögreglu vegna veru sinnar í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var aldrei til rannsóknar hjá lögreglu vegna veru sinnar í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Vísir/Vilhelm

Aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar segir að Bjarni hafi aldrei verið andlag rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við Ásmundarsalsmálið frá því á Þorláksmessu í fyrra.

Jafnframt hafi Bjarni aldrei verið yfirheyrður vegna málsins og nú þegar niðurstaða er komin í málið er hann ekki á meðal þeirra sem boðið hefur verið að greiða sekt.

„Við höfum aldrei verið í neinum samskiptum eða til rannsóknar svo að við vitum til vegna þessa máls. Við höfum ekki fengið neina tilkynningu eða beiðni um yfirheyrslu eða samtal eða neitt,“ segir Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður ráðherra, í samtali við Vísi.

Sjálfur sagði Bjarni við Vísi fyrr í dag: „Ég er ekki aðili að málinu.“

Vísir hefur sagt frá því að niðurstaða liggi fyrir hjá lögreglunni. Hún felur í sér að hlutaðeigandi aðilum hefur verið boðin lögreglustjórasátt, sem þýðir að þeim býðst að greiða sekt innan ákveðins frests.

Hvaða aðilum er boðið að greiða þessa sekt hefur enn ekki komið fram, en þar sem Bjarna Benediktssyni, sem var sannarlega staddur í Ásmundarsal þetta kvöld, hefur ekki verið boðið það, má leiða að því líkum að það séu heldur staðarhaldararnir sem sæta sektum.

Að sátt sé boðin í málinu gefur til kynna að saknæmt athæfi hafi átt sér stað, en eigendur Ásmundarsals tóku þó fyrir að svo hafi verið á sínum tíma. Tíu máttu koma saman samkvæmt almennum sóttvarnareglum en þar sem rýmið skilgreindist bæði sem veitingarými og verslun sýndu eigendurnir fram á að í raun hafi 50 mátt koma saman í húsinu.


Tengdar fréttir

Ásmundarsalsfólk sektað en Bjarni kemur af fjöllum

Niðurstaða er komin í Ásmundarsalsmálið svonefnda frá því á Þorláksmessu í fyrra, þar sem hópur fólks gerðist uppvís að því að hafa farið fram yfir leyfilegan fjölda fólks á samkomum vegna sóttvarnatakmarkana.

Engin frumkvæðisathugun í kortunum hjá umboðsmanni

Umboðsmaður Alþingis hefur enga ákvörðun tekið um að hefja frumkvæðisathugun á samskiptum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðherra á aðfangadag síðastliðinn. Málið er enn á borði ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×