Innlent

Skipuðu tvo nýja odd­vita Frjáls­lynda lýð­ræðis­flokksins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þeir Björgvin Egill og Magnús munu leiða Frjálslynda lýðræðisflokkinn í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi.
Þeir Björgvin Egill og Magnús munu leiða Frjálslynda lýðræðisflokkinn í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Aðsend

Uppstillingarnefnd Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem stofnaður var af athafnamanninum, hagfræðingnum og fyrrverandi forsetaframbjóðandanum Guðmundi Franklín Jónssyni fyrir komandi Alþingiskosningar, hefur skipað tvo nýja oddvita.

Um er að ræða þá Magnús Guðbergsson, öryrkja í Suðurkjördæmi, og Björgvin Egil Vídalín Arngrímsson, eftirlaunaþega í Norðausturkjördæmi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

Fyrir höfðu tveir oddvitar í öðrum kjördæmum verið skipaðir, þeir Glúmur Baldvinsson, stjórnmálafræðingur í Reykjavíkurkjördæmi suður, og Guðmundur Franklín sjálfur í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Í tilkynningunni kemur fram að oddvitar í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi verði kynntir um helgina.

Efling lýðræðis og þjóðaratkvæðagreiðslur

Guðmundur Franklín var eini mótframbjóðandi Guðna Th. Jóhannessonar, sitjandi forseta, í forsetakosningunum sem fram fóru í júní á síðasta ári, en laut í lægra haldi. Í október á þessu ári var greint frá því að Guðmundur hygðist fara fram með framboð til Alþingis undir merkjum Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem er með listabókstafinn O.

Á vef flokksins segir að hann leggi áherslu á að styrkja „grunnstoðir samfélagsins þar sem einstaklingurinn nýtur frelsis til athafna í gegnum sköpunarkraft og með frumkvæði að vopni.“

Flokkurinn vilji efla beint lýðræði og nota þjóðaratkvæðagreiðslur í mikilvægum málefnum. Þá er á vefnum að finna yfir 60 atriða lista með stefnumálum flokksins sem eru kjörnuð á stuttan hátt. Á meðal þeirra er að uppræta spillingu, lækka skatta og hafna Orkupakka 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×