Innlent

Borgar­byggð er sýkn af 60 milljóna króna kröfu brott­rekins sveitar­stjóra

Árni Sæberg skrifar
Frá Borgarnesi. Í bréfi sveitarstjórnar til Gunnlaugs segir að ástæður fyrir brottrekstri stefnanda væru mismunandi sýn aðila á stjórnun sveitarfélagsins, skortur á verkstjórn og að hann hefði brotið trúnað í tengslum við stjórnsýsluúttekt á sveitarfélaginu.
Frá Borgarnesi. Í bréfi sveitarstjórnar til Gunnlaugs segir að ástæður fyrir brottrekstri stefnanda væru mismunandi sýn aðila á stjórnun sveitarfélagsins, skortur á verkstjórn og að hann hefði brotið trúnað í tengslum við stjórnsýsluúttekt á sveitarfélaginu. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Vesturlands kvað í dag upp dóm þess efnis að Borgarbyggð væri sýkn af öllum kröfum Gunnlaugs Auðuns Júlíussonar. 

Gunnlaugur stefndi Borgarbyggð til greiðslu tæpra sextíu milljóna króna vegna uppsagnar sem hann taldi ólögmæta. Gunnlaugur var sveitarstjóri sveitarfélagsins frá 2016 til 2019, þegar honum var sagt upp störfum.

Ástæða uppsagnarinnar var trúnaðarbrestur milli Gunnlaugs og sveitarstjórnar Borgarbyggðar.

Í bréfi sveitarstjórnar til Gunnlaugs segir að ástæður fyrir brottrekstri stefnanda væru mismunandi sýn aðila á stjórnun sveitarfélagsins, skortur á verkstjórn og að hann hefði brotið trúnað í tengslum við stjórnsýsluúttekt á sveitarfélaginu.

Gunnlaugur reisti dómkröfur sínar á því að Borgarbyggð hafi brotið með ólögmætum og saknæmum hætti gegn honum með því að segja honum upp störfum þar sem engar forsendur hafi verið að lögum til þess eða samkvæmt þeim samningum sem um starfssambandið giltu. Ákvörðun Borgarbyggðar um uppsögnina hafi jafnframt verið ógild að stjórnsýslurétti, samkvæmt Gunnlaugi.

Héraðsdómur telur að Gunnlaugur hafi ekki sýnt fram á fram á að Borgarbyggð hafi brotið gegn tilgreindum skráðum eða óskráðum reglum stjórnsýsluréttar er ákvörðun um uppsögn hans var tekin. Því var Borgarbyggð sýknuð af öllum kröfum Gunnlaugs.

Borgarbyggð krafðist greiðslu málskostnaðar úr hendi Gunnlaugs en hann var látinn niður falla.


Tengdar fréttir

Gunn­laugur höfðar mál á hendur Borgar­byggð

Fyrrverandi sveitarstjóri Borgarbyggðar hefur höfðað mál á hendur sveitarfélaginu vegna uppgjörs á óteknu orlofi og launum samkvæmt ráðningarsamningi. Þar að auki verður krafist bóta vegna uppsagnar sem hann vill meina að hafi varið ólögleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×