Úkraínumenn halda í vonina eftir mikilvægan sigur gegn Norður-Makedóníu

Úkraínumenn fagna fyrra marki sínu í dag.
Úkraínumenn fagna fyrra marki sínu í dag. Robert Ghement - Pool/Getty Images

Úkraína og Norður-Makedónía mættust í fyrsta leik dagsins á Evrópumótinu í knattspyrnu. Bæði lið brenndu af vítaspyrnu í leiknum, en það voru Úkraínumenn sem stóðu uppi sem sigurvegarar. Lokatölur 2-1, og mikilvæg þrjú stig í hús fyrir Úkraínu.

Andriy Yarmolenko kom Úkraínumönnum yfir eftir tæplega hálftíma leik eftir stoðsendingu frá Alexander Karavaev.

Fimm mínútum síðar lagði Yarmolenko upp annað mark Úkraínu fyrir Roman Yaremchuk og staðan 2-0 í hálfleik.

Norður-Makedóníumenn fengu dæmda vítaspyrnu á 55.mínútu þegar Alexander Karavaev braut á Goran Pandev innan vítateigs.

Ezgjan Alioski fór á punktinn, en George Buschan sá við honum í marki Úkraínumanna. Alioski var þó fyrstur að átta sig og tók frákastið og kom boltanum í netið.

Þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka fengu Úkraínumenn vítaspyrnu. Myndbandsdómgæslan tók þá eftir því að Daniel Avramovski hafði handleikið knöttinn innan vítateigs.

Ruslan Malinovsky fór þá á punktinn fyrir Úkraínumenn, en Stole Dimitrievski varði frá honum og þar við sat.

Úkraínumenn náðu því í mikilvæg þrjú stig og eiga enn ágætis möguleika á að komast upp úr riðlinum fyrir lokaleikinn gegn Austurríki.

Norður-Makedónía er hinsvegar enn stigalaust, og því ansi líklegt að þeir séu á heimleið.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira