Lífið

Sprautar fólk og spilar í höllinni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Victor var hinn hressasti þegar fréttastofa ræddi við hann.
Victor var hinn hressasti þegar fréttastofa ræddi við hann. Vísir/Sigurjón

Um níu þúsund manns voru bólusettir gegn kórónuveirunni í Laugardalshöll í dag. Á meðan heilbrigðisstarfsmenn voru í óðaönn við að bólusetja mannskapinn stóð einn starfsmanna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins uppi í stúku og þeytti skífum.

Um er að ræða lækninn og tónlistarmanninn Victor Guðmundsson, sem er betur þekktur sem Doctor Victor. Hann var í miklum gír þegar fréttastofa náði tali af honum í höllinni fyrr í dag.

„Ég var að bólusetja hérna um daginn, því ég er að vinna á heilsugæslunni. Þau báðu mig um að koma og bólusetja og yfirhjúkkan spurði „Værir þú ekki til í að koma og spila hérna,“ og ég sagði bara, hvers vegna ekki?“

Hann segir daginn hafa verið góðan, enda hafi hann nú fengið reynslu af því að spila fyrir nýbólusetta auk þess að bólusetja sjálfur. Hann segir erfitt að svara því hvort sé skemmtilegra, að spila eða sprauta.

Byrjar á bráðamóttökunni í dag

„Ég er að byrja á bráðamóttökunni í dag, þannig að það má segja að dagurinn sé svolítið blandaður. Ég er að spila hérna fyrri partinn og svo er ég að fara á bráðamóttökuna á eftir.“

Hann segir magnað að fylgjast með gangi bólusetninga í höllinni.

„Þetta er eins og smurð vél. Röð fyrir röð og ótrúlega gott skipulag. Svo er svo gaman að hafa svona tónlist. Það gefur svo mikið og er bara stemning,“ segir læknirinn, sem leiddist út í tónlistina í miðju læknanámi. Telja verður líklegt að þetta sé í fyrsta sinn sem hann sameinar þessa tvo þætti í lífi sínu með jafn áhrifaríkum hætti.

„Þetta er kjörið tækifæri. Báðir heimar að mætast, bólusetning og tónlist.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.