Innlent

Fjögurra metra hár leiði­garður settur upp syðst í Geldinga­dölum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Garðarnir verða eins og þeir sem voru reistir fyrr á þessu ári. 
Garðarnir verða eins og þeir sem voru reistir fyrr á þessu ári.  Egill Aðalsteinsson

Almannavarnir, Grindavíkurbær og aðgerðastjórn vegna eldgossins í Geldingadölum hafa ákveðið að ráðast í gerð leiðigarðs syðst í Geldingadölum og varnargarðs til að minnka líkur á að hraun renni niður í Nátthagakrika.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum. Hraun fór að renna úr syðsta hluta Geldingadala í gær, yfir gönguleið A og áfram niður í Nátthaga. Þetta gerðist mun fyrr en búist var við og reiknað er með að hraunflæði inn á svæðið verði frekara. Haldi það áfram á sömu braut má reikna með að hraunið fari að renna niður í Nátthagakrika en þaðan er opið svæði í norður, vestur og suður.

Talið er að leiðigarður og varnargarður minnki líkur á, eða seinki verulega, að hraun fari niður í Nátthagakrika. Leiðigarðurinn verður hannaður á sama hátt og varnargarðarnir sem voru reistir fyrir ofan við Nátthaga á sínum tíma.

Fyrst um sinn verður hann fjórir metrar á hæð en ekki liggur fyrir hver lengd hans verður. Framkvæmdir eru þegar hafnar en byrjað verður á að setja neyðarruðning upp við núverandi hraunrönd til að stöðva frekari framgang.

Famkvæmdatími liggur ekki fyrir en búast má við að þær taki nokkra daga. Notast verður við efni sem þegar er á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×