Skoðun

„Ung móðir og á lausu“

Lúðvík Júlíusson skrifar

Það er nokkuð augljóst að ég er ekki að tala um mig. Ég ætla að ræða hugtakanotkun í stuttu máli.

Þegar foreldrar skilja þá verður annað foreldrið „einstætt foreldri“ en hitt foreldrið verður „einstaklingur.“ „Einstætt“ þýðir aðeins að foreldrið sé á lausu.

Hér flækjast málin nefnilega. Hugtakið „einstaklingur“ segir ekkert til um kostnað, álag, ábyrgð vegna umönnunar barna o.s.fr.v.. Það sama á við um hugtakið „einstætt foreldri“.

Samt eru ótrúlega margir sem draga ályktun um að svo sé. Dragi fólk þessar ályktanir þá er það gott dæmi um að ekki hafi tekist að ná markmiðum Jafnréttislaga(1) um að „vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla.“

Hugmyndir feðraveldisins um að konur eigi að sinna umönnun barna og að feður eigi að vera fyrirvinnur endurspeglast í mikið viðhorfum fólks til hugtakanna „einstæð móðir“ og „einstaklingur“. Móðir er bundin barni en faðirinn er orðinn frjáls einstaklingur. Fæstir myndu samt viðurkenna að andstöðu sína við jafnrétti og femínisma.

Til að vinna gegn þessum fordómum og auka réttindi barna þá er nauðsynlegt að Alþingi breyti lögum um Þjóðskrá og láti stofnunina skrá umgengni foreldra. Þá væri hægt að breyta fjölskyldugerðinni „einstætt foreldri“ einfaldlega í „foreldri“. Báðir foreldrar barnsins yrðu þá skráðir „foreldrar“. Það myndi ekki flækja skráninguna eða valda ruglingi vegna þess að til staðar eru hugtökin „hjón með börn“ og „hjón án barna“. Ef það þarf að fá ítarlegri upplýsingar um stöðu barna og foreldra þá væri hægt að greina þessa hópa eftir bæði forsjá, umgengni, lögheimili barna og sambandsstöðu.

Ef Þessar breytingar væru gerðar þá loks gætum við loksins átt innihaldsríkar og málefnalegar umræður um stöðu barna og foreldra.

Í dag veit enginn hverjar tekjur foreldra eru, hvar börn búa í fátækt og hvernig best sé að styðja við foreldra. Eins og kerfið er sett upp í dag þá myndi hækkun barnabóta út í hið óendanlega ekki útrýma fátækt barna.

Eigum við ekki að fá svör við þessum spurningum og hjálpa börnum og foreldrum sem eru hjálparþurfi?

Höfundur er viðskiptafræðingur, faðir og áhugamaður um réttindi barna.


Heimildir:

(1) https://www.althingi.is/lagas/nuna/2020150.html




Skoðun

Sjá meira


×