Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Stjarnan 92-74 | Þórsarar komnir í úrslit Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 12. júní 2021 23:20 Vísir/Bára Það verða Þór Þorlákshöfn og Keflavík sem mætast í úrslitum úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta. Þetta vaðr ljóst þegar Þórsarar sigruðu Stjörnuna í oddaleik liðanna í Þorlákshöfn í kvöld. Gestirnir settu tóninn snemma og komust fljótlega í átta stiga forskot. Vörn Stjörnumanna gerði Þórsurum erfitt fyrir, en á tímapunkti voru bæði lið ekki að skjóta nógu vel og munurinn hélst svipaður í nokkra stund. Þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta var munurinn ellefu stig, en þá tók Lárus leikhlé og Þórsarar settu niður tvo þrista á lokamínútu fjórðungsins. Ægir setti þó niður sniðskot hinumegin og kæruleysi í vörn Þórsara skilaði Tómasi Þórði flautukörfu til að auka muninn aftur í níu stig áður en leikhlutinn var úti. Liðin buðu svo upp á skotsýningu í upphafi annars leikhluta. Þórsarar virtust oft á tíðum vera við það að ná góðu áhlaupi, en Stjörnumenn slökktu alltaf í þeim. Heimamenn náðu loksins góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks þegar þeir skoruðu 13 stig gegn þremur stigum gestanna og minnkuðu muninn niður í þrjú stig. Larry Thomas fékk tækifæri til að jafna metin undir lok hálfleiksins, en skot hans úr erfiðri stöðu og staðan því 44-47 þegar gengið var til búningsherbergja. Þórsarar héldu áhlaupi sínu áfram í seinni hálfleik og voru búnir að skora 12 stig áður en Stjarnan kom boltanum ofan í körfuna og heimamenn allt í einu komnir með níu stiga forskot. Stjörnumenn vöknuðu til lífsins um miðjan leikhlutann og þegar rúm mínúta var eftir var staðan aftur orðin jöfn í 61-61. Þórsarar skoruðu seinustu fjögur stig leikhlutans og fóru því með fjögurra stiga forskot í lokaleikhlutann. Heimamenn byrjuðu fjórða leikhlutann af sama krafti og þann þriðja og komust fljótt í tíu stiga forskot. Enn gekk lítið upp hjá gestunum og Þórsarar gengu á lagið. Þegar um fimm mínútur voru eftir var staðan orðin 81-63 og brekkan orðin ansi brött fyrir gestina. Arnar tók leikhlé og breytti í mjög aggressíva vörn í von um það að stela nokkrum boltum og minnka muninn undir lokin. Það gekk þó ekki upp og Þórsarar sigldu heim 18 stiga sigri, 92-74. Af hverju vann Þór? Eftir erfiða byrjun í kvöld vöknuðu Þórsarar all svakalega til lífsins og keyrðu yfir gestina. Það þarf ekki að horfa lengi á tölfræði leiksins til að sjá það að Þórsararnir voru einfaldlega betri í kvöld. Hverjir stóðu upp úr? Eins og svo oft áður var Larry Thomas stigahæstur með 23 stig. Hann hafði hægt um sig í seinni hálfleik, en spilaði stóra rullu í áhlaupum Þórsara þegar þeir snéru leiknum sér í hag. Adomas Drungilas var eins og algjört skrímsli undir körfunni. Það gekk ekkert stórkostlega hjá honum í að koma boltanum í gegnum hringinn, en Drungilas tók hvorki meira né minna en 24 fráköst og gjörsamlega átti teiginn. Hvað gekk illa? Stjörnumönnum gekk illa að fylgja eftir góðri byrjun leiksins. Þeir náðu góðu forskoti snemma í leiknum, en áttu fá svör þegar Þórsararnir vöknuðu til lífsins. Hvað gerist næst? Sumarfrí og undirbúningstímabil er það sem tekur við hjá Stjörnumönnum. Þórsarar eru hinsvegar á leiðinni í úrslitaeinvígi gegn deildarmeisturum Keflavíkur og fyrsti leikur liðanna verður á miðvikudaginn klukkan 20:15 í Keflavík. Styrmir: Þetta er bara körfubolti Styrmir Snær [fyrir miðju] í baráttunni við Hlyn Bæringsson og Ægi Þór Steinarsson.Vísir/Bára Dröfn „Þetta var bara geggjað,“ sagði Styrmir Snær að leikslokum. „Það stefndi nú ekki í þetta í fyrri hálfleik og aðallega eftir fyrsta leikhluta en við komum bara til baka og spiluðum allt öðruvísi í seinni hálfleik.“ Eins og áður segir skoraði Styrmir 21 stig í leiknum, en hann átti í basli í upphafi leiks. „Ég var kannski að þvinga hlutina full mikið í byrjun. En svo leifði ég leiknum bara að koma til mín í seinni hálfleik og því fór sem fór.“ Þrátt fyrir ungan aldur hefur Styrmir blómstrað á tímabilinu og það mætti oft halda að hann hafi spilað í deildinni til fjölda ára. „Ég finn engan mun á því að spila núna eða í fyrra. Þetta er bara körfubolti sko. Við erum náttúrulega með geggjað lið og þeir hjálpa mér að komast í gegnum þetta.“ Eins og við var að búast var mikil stemning í Icelandic Glacial höllinni í kvöld og Styrmir var gríðarlega ánægður með stuðninginn sem liðið fékk í kvöld. „Þetta er auðvitað bara geggjað. Sérstaklega lætin sem voru í Græna drekanum í seinni hálfleiknum. Þeir eru ekkert að fara að sofa strax, það verður partý fram á nótt.“ „En við erum að fara í úrslitin og ég vona innilega að þeir fjölmenni þangað.“ Arnar: Þeir voru bara betri en við í seríunni Arnar var svekktur eftir leik en hrósaði Þórsurum fyrir góða seríu.Vísir/Daníel Þór „Ég ætla að byrja bara á því að óska Þórsurum til hamingju. Þeir eiga þetta skilið, það er bara þannig því miður,“ sagði Arnar að leik loknum. Þórsarar tóku mikið áhlaup undir lok fyrri hálfleiks sem hélt áfram í byrjun seinni hálfleiks þar sem að þeir skoruðu 18 stig í röð. Arnar segir að þetta áhlaup hafi gert hans mönnum ansi erfitt fyrir. „Þetta áhlaup þarna í öðrum og þriðja gerði okkur mjög erfitt fyrir og í rauninni hvernig þeir opna fjórða leikhluta. Ég held að þeir byrji hann 8-0 eða eitthvað svoleiðis þegar við erum að koma okkur inn í þetta aftur og það svona tók þetta úr höndunum á okkur.“ Arnar hrósaði spilamennsku Þórsara og viðurkenndi það að strákarnir frá Þorlákshöfn hefðu einfaldlega verið betri í seríunni. „Ég sagði það mjög snemma í vetur að ef það væri eitthvað lið sem ég myndi vilja borga mig inn á til að horfa á þá er það Þór Þorlákshöfn. Þetta er lang skemmtilegasta liðið í deildinni.“ „Þeir voru bara betri en við í seríunni. Þeir fóru illa með okkur í einn á einn aðstæðum sem að við réðum ekki við. Þeir komust á hringinn og því fór sem fór.“ „Ég er samt stoltur af leikmönnunum mínum. Þeir lögðu sig alla fram í vetur á erfiðu ári en þetta er bara svona.“ Adomas Drungilas: Við ætlum að sýna að við erum bestir Adomas Drungilas tók 24 fráköst í kvöld.VÍSIR/BÁRA Adomas Drungilas átti stórleik í liði Þórsara, en hann tók 24 fráköst í kvöld. „Við töluðum um það inni í klefa fyrir leik að það skiptir ekki máli hvað það er sem maður er að gera á vellinum. Maður þarf bara að berjast,“ sagði Adomas Drungilas eftir sigur kvöldsins. „Stundum gengur illa að skora bæði hvort sem það er úr þriggja stiga skotum eða öðru og þá þarf maður að reyna að gera eitthvað annað eins og að spila góða vörn eða taka fráköst eða eitthvað annað.“ „Ég er svo sem ekki mikið að pæla í hvað ég tók mörg fráköst. Ég er bara glaður að liðið sé á leið í úrslit.“ „Við erum ekki að fara bara til þess að spila við Keflavík. Við ætlum að sýna að við erum bestir. Í kvöld vorum við ekki góðir í upphafi leiks en við fundum flæðið og þannig unnum við Stjörnuna.“ „Við náðum nokkrum stoppum í röð sem gaf okkur meiri orku í sókninni og gaf okkur meiri tíma til að endurstilla okkur.“ „Svona hefur þetta verið í allan vetur. Við náum góðum stoppum og keyrum í bakið á andstæðingunum. Við erum í rauninni ekkert að hugsa um það. Við erum bara að spila körfubolta og njóta þess.“ Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur. Dominos-deild karla Þór Þorlákshöfn Stjarnan
Það verða Þór Þorlákshöfn og Keflavík sem mætast í úrslitum úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta. Þetta vaðr ljóst þegar Þórsarar sigruðu Stjörnuna í oddaleik liðanna í Þorlákshöfn í kvöld. Gestirnir settu tóninn snemma og komust fljótlega í átta stiga forskot. Vörn Stjörnumanna gerði Þórsurum erfitt fyrir, en á tímapunkti voru bæði lið ekki að skjóta nógu vel og munurinn hélst svipaður í nokkra stund. Þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta var munurinn ellefu stig, en þá tók Lárus leikhlé og Þórsarar settu niður tvo þrista á lokamínútu fjórðungsins. Ægir setti þó niður sniðskot hinumegin og kæruleysi í vörn Þórsara skilaði Tómasi Þórði flautukörfu til að auka muninn aftur í níu stig áður en leikhlutinn var úti. Liðin buðu svo upp á skotsýningu í upphafi annars leikhluta. Þórsarar virtust oft á tíðum vera við það að ná góðu áhlaupi, en Stjörnumenn slökktu alltaf í þeim. Heimamenn náðu loksins góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks þegar þeir skoruðu 13 stig gegn þremur stigum gestanna og minnkuðu muninn niður í þrjú stig. Larry Thomas fékk tækifæri til að jafna metin undir lok hálfleiksins, en skot hans úr erfiðri stöðu og staðan því 44-47 þegar gengið var til búningsherbergja. Þórsarar héldu áhlaupi sínu áfram í seinni hálfleik og voru búnir að skora 12 stig áður en Stjarnan kom boltanum ofan í körfuna og heimamenn allt í einu komnir með níu stiga forskot. Stjörnumenn vöknuðu til lífsins um miðjan leikhlutann og þegar rúm mínúta var eftir var staðan aftur orðin jöfn í 61-61. Þórsarar skoruðu seinustu fjögur stig leikhlutans og fóru því með fjögurra stiga forskot í lokaleikhlutann. Heimamenn byrjuðu fjórða leikhlutann af sama krafti og þann þriðja og komust fljótt í tíu stiga forskot. Enn gekk lítið upp hjá gestunum og Þórsarar gengu á lagið. Þegar um fimm mínútur voru eftir var staðan orðin 81-63 og brekkan orðin ansi brött fyrir gestina. Arnar tók leikhlé og breytti í mjög aggressíva vörn í von um það að stela nokkrum boltum og minnka muninn undir lokin. Það gekk þó ekki upp og Þórsarar sigldu heim 18 stiga sigri, 92-74. Af hverju vann Þór? Eftir erfiða byrjun í kvöld vöknuðu Þórsarar all svakalega til lífsins og keyrðu yfir gestina. Það þarf ekki að horfa lengi á tölfræði leiksins til að sjá það að Þórsararnir voru einfaldlega betri í kvöld. Hverjir stóðu upp úr? Eins og svo oft áður var Larry Thomas stigahæstur með 23 stig. Hann hafði hægt um sig í seinni hálfleik, en spilaði stóra rullu í áhlaupum Þórsara þegar þeir snéru leiknum sér í hag. Adomas Drungilas var eins og algjört skrímsli undir körfunni. Það gekk ekkert stórkostlega hjá honum í að koma boltanum í gegnum hringinn, en Drungilas tók hvorki meira né minna en 24 fráköst og gjörsamlega átti teiginn. Hvað gekk illa? Stjörnumönnum gekk illa að fylgja eftir góðri byrjun leiksins. Þeir náðu góðu forskoti snemma í leiknum, en áttu fá svör þegar Þórsararnir vöknuðu til lífsins. Hvað gerist næst? Sumarfrí og undirbúningstímabil er það sem tekur við hjá Stjörnumönnum. Þórsarar eru hinsvegar á leiðinni í úrslitaeinvígi gegn deildarmeisturum Keflavíkur og fyrsti leikur liðanna verður á miðvikudaginn klukkan 20:15 í Keflavík. Styrmir: Þetta er bara körfubolti Styrmir Snær [fyrir miðju] í baráttunni við Hlyn Bæringsson og Ægi Þór Steinarsson.Vísir/Bára Dröfn „Þetta var bara geggjað,“ sagði Styrmir Snær að leikslokum. „Það stefndi nú ekki í þetta í fyrri hálfleik og aðallega eftir fyrsta leikhluta en við komum bara til baka og spiluðum allt öðruvísi í seinni hálfleik.“ Eins og áður segir skoraði Styrmir 21 stig í leiknum, en hann átti í basli í upphafi leiks. „Ég var kannski að þvinga hlutina full mikið í byrjun. En svo leifði ég leiknum bara að koma til mín í seinni hálfleik og því fór sem fór.“ Þrátt fyrir ungan aldur hefur Styrmir blómstrað á tímabilinu og það mætti oft halda að hann hafi spilað í deildinni til fjölda ára. „Ég finn engan mun á því að spila núna eða í fyrra. Þetta er bara körfubolti sko. Við erum náttúrulega með geggjað lið og þeir hjálpa mér að komast í gegnum þetta.“ Eins og við var að búast var mikil stemning í Icelandic Glacial höllinni í kvöld og Styrmir var gríðarlega ánægður með stuðninginn sem liðið fékk í kvöld. „Þetta er auðvitað bara geggjað. Sérstaklega lætin sem voru í Græna drekanum í seinni hálfleiknum. Þeir eru ekkert að fara að sofa strax, það verður partý fram á nótt.“ „En við erum að fara í úrslitin og ég vona innilega að þeir fjölmenni þangað.“ Arnar: Þeir voru bara betri en við í seríunni Arnar var svekktur eftir leik en hrósaði Þórsurum fyrir góða seríu.Vísir/Daníel Þór „Ég ætla að byrja bara á því að óska Þórsurum til hamingju. Þeir eiga þetta skilið, það er bara þannig því miður,“ sagði Arnar að leik loknum. Þórsarar tóku mikið áhlaup undir lok fyrri hálfleiks sem hélt áfram í byrjun seinni hálfleiks þar sem að þeir skoruðu 18 stig í röð. Arnar segir að þetta áhlaup hafi gert hans mönnum ansi erfitt fyrir. „Þetta áhlaup þarna í öðrum og þriðja gerði okkur mjög erfitt fyrir og í rauninni hvernig þeir opna fjórða leikhluta. Ég held að þeir byrji hann 8-0 eða eitthvað svoleiðis þegar við erum að koma okkur inn í þetta aftur og það svona tók þetta úr höndunum á okkur.“ Arnar hrósaði spilamennsku Þórsara og viðurkenndi það að strákarnir frá Þorlákshöfn hefðu einfaldlega verið betri í seríunni. „Ég sagði það mjög snemma í vetur að ef það væri eitthvað lið sem ég myndi vilja borga mig inn á til að horfa á þá er það Þór Þorlákshöfn. Þetta er lang skemmtilegasta liðið í deildinni.“ „Þeir voru bara betri en við í seríunni. Þeir fóru illa með okkur í einn á einn aðstæðum sem að við réðum ekki við. Þeir komust á hringinn og því fór sem fór.“ „Ég er samt stoltur af leikmönnunum mínum. Þeir lögðu sig alla fram í vetur á erfiðu ári en þetta er bara svona.“ Adomas Drungilas: Við ætlum að sýna að við erum bestir Adomas Drungilas tók 24 fráköst í kvöld.VÍSIR/BÁRA Adomas Drungilas átti stórleik í liði Þórsara, en hann tók 24 fráköst í kvöld. „Við töluðum um það inni í klefa fyrir leik að það skiptir ekki máli hvað það er sem maður er að gera á vellinum. Maður þarf bara að berjast,“ sagði Adomas Drungilas eftir sigur kvöldsins. „Stundum gengur illa að skora bæði hvort sem það er úr þriggja stiga skotum eða öðru og þá þarf maður að reyna að gera eitthvað annað eins og að spila góða vörn eða taka fráköst eða eitthvað annað.“ „Ég er svo sem ekki mikið að pæla í hvað ég tók mörg fráköst. Ég er bara glaður að liðið sé á leið í úrslit.“ „Við erum ekki að fara bara til þess að spila við Keflavík. Við ætlum að sýna að við erum bestir. Í kvöld vorum við ekki góðir í upphafi leiks en við fundum flæðið og þannig unnum við Stjörnuna.“ „Við náðum nokkrum stoppum í röð sem gaf okkur meiri orku í sókninni og gaf okkur meiri tíma til að endurstilla okkur.“ „Svona hefur þetta verið í allan vetur. Við náum góðum stoppum og keyrum í bakið á andstæðingunum. Við erum í rauninni ekkert að hugsa um það. Við erum bara að spila körfubolta og njóta þess.“ Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti