Erlent

Ca­still­o lýsir yfir sigri en Fujimori vill ó­gilda fjölda at­kvæða

Atli Ísleifsson skrifar
Pedro Castillo ávarpar stuðningsmenn sína á kosningafundi í Tacabamba um síðustu helgi.
Pedro Castillo ávarpar stuðningsmenn sína á kosningafundi í Tacabamba um síðustu helgi. EPA

Talning atkvæða stendur en yfir eftir forsetakosningarnar í Perú. Mjög mjótt er á munum en vinstrimaðurinn Pedro Castillo hefur þegar lýst yfir sigri á meðan andstæðingur hans, hægrimaðurinn Keiko Fujimori, hefur farið fram á að hundruð þúsunda atkvæða verði úrskurðuð ógild.

Þegar búið er að telja rúmlega 99,8 prósent atkvæða er Castillo með 50,2 prósent atkvæða, en Fujimori 49,8 prósent.

Erlendir fjölmiðlar segja að Fujimori hafi nú farið fram á að atkvæðaseðlar frá rúmlega átta hundruð kjördeildum, samtals um 200 þúsund atkvæði, verði úrskurðaðir ógildir vegna þess sem hún lýsir sem kosningasvindli.

Keiko Fujimori.EPA

Landskjörstjórn í Perú hefur enn ekki lýst neinn sigurvegara en Castillo segir ljóst að hann hafi borið sigur úr býtum. Hann hefur sömuleiðis þakkað fyrir þær hamingjuóskir sem hann segist hafa fengið frá ríkisstjórnum og sendiráðum erlendra ríkja.

Engin ríkisstjórn erlends ríkis hefur þó enn viðurkennt sigur Castillo, jafnvel þó að fyrrverandi forseti Bólivíu, vinstrimaðurinn Evo Morales, hafi sent Castillo hamingjuóskir á Twitter.

Í nótt munaði um 67 þúsund atkvæði á þeim Castillo og Fujimori, en landskjörstjórn hefur varaði við að endanleg niðurstaða verði mögulega ekki ljós og kynnt fyrr en eftir tíu til tólf daga.


Tengdar fréttir

Mjótt á munum í Perú

Talning atkvæða stendur nú yfir í Perú en forsetakosningar fóru fram í landinu í gær. Keiko Fujimori hefur naumt forskot á andstæðing sinn, Pedro Castillo, þegar 90 prósent atkvæða hafa verið talin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×