Erlent

Bók eftir Hitler og vopn á heimili annars hinna hand­teknu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Macron var löðrungaður í gær.
Macron var löðrungaður í gær. Chesnot/Getty

Rannsóknarlögreglumenn fundu eggvopn, byssu og bók eftir Adolf Hitler á heimili annars tveggja manna sem handteknir voru í gær í tengslum við árás á Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Macron var löðrungaður þar sem hann heilsaði fólki sem var saman komið til að berja forsetann augum þegar hann heimsótti bæinn Tain-l‘Hermitage.

Tveir menn voru handteknir í tengslum við árásina. Sá sem grunaður er um að hafa slegið forsetann og sá sem grunaður er um að hafa fest atvikið á filmu. Vopnin og bókin Mein Kampf, fyrsta og þekktasta ritverk Hitlers.

Meðal vopnanna sem breska ríkisútvarpið greinir frá að hafi fundist heima hjá manninum eru sverð, kuti og riffill, sem er löglega skráður í eigu mannsins sem safngripur.

Einangrað atvik sem hefur ekki áhrif

Gabriel Attal, talsmaður Macrons hefur neitað því að öryggisverðir forsetans hafi varað forsetann við því að fara of nálægt mannfjöldanum áður en hann var sleginn utan undir. Hann segir atvikið ekki til þess fallið að forsetinn hætti að vera í beinum samskiptum við almenning.

Sjálfur hefur Macron gert lítið úr árásinni sem hann segir einfaldlega vera einangrað atvik. Þá lét hann hafa eftir sér að „ofur-ofbeldisfullt fólk“ fengi ekki að ræna opinberri umræðu í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×