Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Stjarnan 115-92 | Þórsarar kjöldrógu Stjörnumenn og eru einum sigri frá úrslitaeinvíginu Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 6. júní 2021 23:29 Hlynur Bæringsson og Adomas Drungilas með augun á boltanum. VÍSIR/BÁRA Þór og Stjarnan mættust í Þorlákshöfn í kvöld í þriðja leik undanúrslitaeinvígisins. Gestrnir byrjuðu betur, en um miðjan fyrsta leikhluta tóku Þórsarar yfir og unnu að lokum sannfærandi sigur. Lokatölur 115-92 og strákarnir frá Þorlákshöfn eru nú einum sigri frá úrslitaeinvíginu. Gestirnir byrjuðu betur og um miðjan fyrsta leikhluta náðu þeir sjö stiga forskoti þegar Hlynur Bæringsson setti niður þrist og kom Stjörnunni í 14-7. Þá tóku heimamenn við sér og skoruðu næstu 13 stig og staðan orðin 20-14 heimamönnum í vil. Garðbæingarnir náðu aðeins að stoppa í götin og koma sóknarleiknum aftur í gang, en staðan var 30-25 að fyrsta leikhluta loknum. Liðin áttu svo erfitt með að finna körfuna fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta, en það voru heimamenn sem voru fyrri til að ranka við sér. Adomas Drungilas kom Þórsurum í níu stiga forskot um miðbik leikhlutans og Callum Lawson jók muninn í 12 stig stuttu seinna. Alexander Lindqvist minnkaði muninn í þrjú stig þegar hann setti niður góðan þrist, en Þórsarar bættu þá aftur í. Lindqvist lagaði stöðuna rétt fyrir hálfleik, en þriggja stiga skot hans sá til þess að staðan var 59-51 þegar gengið var til búningsherbergja. Þórsarar tóku fótinn aldrei af bensíngjöfinni í seinni hálfleik og fljótlega var munurinn orðinn 14 stig. Þórsarar gáfu ekki tommu eftir og undir lok þriðja leikhluta setti Callum Lawson niður einn gjörsamlega galinn þrist og staðan því 86-70 fyrir lokaleikhlutann. Þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta var munurinn svo orðinn 20 stig og brekkan ansi brött fyrir gestina. Um miðjan leikhlutann vissu báðir þjálfarar í hvað stefndi og ungu strákarnir fengu nokkrar mínútur. Þórsarar unnu að lokum 23 stiga sigur 115-92 og eru því aðeins einum sigri frá úrslitaeinvíginu. Af hverju vann Þór? Þórsarar voru mun betri aðilinn í dag og áttu sigurinn fyllilega skilinn. Ef litið er snöggt yfir tölfræði leiksins má sjá að heimamenn voru yfir í nánast öllum þáttum leiksins. Hverjir stóðu upp úr? Callum Lawson átti stórgóðan leik í liði heimamanna. Hann skoraði 26 stig, tók átta fráköst og blokkaði þar að auki tvö skot. Callum var með rúmlega 70 prósent skotnýtingu og setti niður sex þrista í aðeins átta tilraunum. Alexander Lindqvist var atkvæðamestur í liði gestanna með 20 stig. Hvað gekk illa? Gestunum gekk ansi illa að finna lausnir á sóknarleik Þórsara. Stjörnumenn töpuðu einnig frákastabaráttunni, og það gekk sérstaklega illa hjá þeim að hrifsa til sín lausa bolta í fyrri hálfleik. Hvað gerist næst? Liðin mætast í Garðabænum næstkomandi miðvikudag klukkan 20:15 þar sem að heimamenn verða með bakið upp við vegg. Tapi þeir þeim leik eru þeir komnir í sumarfrí og Þórsarar á leið í úrslitaeinvígið. Arnar: Þeir voru að fara mjög illa með okkur Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, hefur oft verið í betra skapi en eftir leik kvöldsins.Vísir/Bára Dröfn „Þórsararnir eiga það til að skjóta hrikalega vel og þeir voru bara miklu betri en við í dag. Þeir tóku okkur í kennslustund,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn. Staðan í hálfleik var 59-51, heimamönnum í vil, en þrátt fyrir að vera aðeins átta stigum undir leið Arnari ekki vel. „Mér leið bara eins og við værum 20 stigum undir. Þeir voru að fara mjög illa með okkur. Mér fannst skrýtið að við höfum náð að hanga inní þessu en svo bara stungu þeir okkur af. Eins og ég segi þá voru þeir bara miklu betri en við í dag.“ Stjarnan tók fleiri sóknarfráköst en Þórsarar í kvöld, en Arnar segir að það hafi verið augljós ástæða fyrir því. „Það var bara ekkert mikið af sóknarfráköstum í boði fyrir þá því þeir hittu alltaf. Ég held að þeir hafi verið með sex sóknarfráköst á móti níu varnarfráköstum í fyrri hálfleik þannig að það er tap fyrir okkur og svo bara héldu þeir áfram að hitta og þannig fór þetta.“ Gunnar Ólafsson þurfti aðhlynningu og þurft að fara af velli um miðjan þriðja leikhluta. Arnar segist ekki vita hver staðan á honum er. „Ekki hugmynd. Ég er ekki læknir. Það kemur bara í ljós þegar búið er að skoða hann. Ég bara veit ekki hver staðan er.“ Lárus: Ég verð bara að stilla upp í eitthvað kerfi og láta hann skjóta frá miðju næst Lárus var virkilega ánægður með framlag sinna manna í kvöld.Vísir/Hulda Margrét „Það er gaman að sjá svona framistöðu en núna þurfum við að koma okkur niður á jörðina,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, eftir sigurinn í kvöld. „Núna er pressa á okkur að fara og vinna leikinn í Ásgarði. En við erum með 160 í framlag og ég hef aldrei séð það áður.“ Það voru margir að skila góðu og miklu framlagi í Þórsliðinu í kvöld og Lárus var virkilega ánægður með liðið í heild sinni. „Ég var ánægður með þá sem komu af bekknum. Það var gott framlag frá þeim. Ég var rosalega ánægður með hvernig Halldór Garðar stýrði leiknum. Hann er með hátt í tíu stig og einnig með hátt í tíu stoðsendingar í kvöld. Mér fannst allir vera að leggja eitthvað af mörkum.“ Callum Lawson er búinn að vera virkilega öflugur í seinustu tveim leikjum og það virðist allt detta ofan í hjá honum. Lárus talaði um að hann, ásamt öðrum, séu fullir sjálfstrausts. „Ég verð bara að stilla upp í eitthvað kerfi og láta hann skjóta frá miðju næst. Sjálfstraust og rétt spennustig skiptir miklu máli.“ „Það kviknaði aðeins á Callum í síðasta leik þannig að núna bara virkaði karfan greinilega stór fyrir hann. Hann lét bara allt fljúga. Ég get svo sem ekkert útskýrt það af hverju hann er allt í einu kominn með svona mikið sjálfstraust.“ Næsti leikur liðanna er á miðvikudaginn þar sem Þórsarar geta tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu. Lárus fór aðeins yfir hvað liðið þarf að gera til að vinnaþann leik. „Ég held að bæði lið vilji spila hratt og í fyrri hálfleik voru bæði lið að hitta rosalega vel. Svo svona minnkaði hittnin hjá þeim en bara hélst hjá okkur. Þess vegna náðum við kannski að slíta þá aðeins frá okkur.“ „Björninn er ekkert unninn þó að við séum 2-1 yfir. Það skiptir engu máli hvernig við unnum þennan leik. Við hefðum alveg eins getað unnið með einu og kannski hefði það bara verið betra. Núna er það mitt að koma strákunum niður á jörðina og láta þá vita að það er pressa á þeim að klára leikinn í Ásgarði.“ Emil Karel: Það er bannað að hika í þessu liði Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs, var kampakátur í leikslok.Vísir/Bára „Þetta er tíminn til að spila sinn besta körfubolta,“ sagði Emil í leikslok. „Við komum bara vel stemmdir í leikinn og ætluðum bara að virkilega stíga á bensíngjöfina og taka þennan sigur.“ Þórsarar voru að skjóta virkilega vel í kvöld og það virtust allir vera heitir í þeim málum. Emil segir að leikmenn liðsins treysti hver öðrum fullkomlega. „Ég vil kannski fyrst óska sjómönnum með daginn hérna úr sjávarþorpinu. En við töluðum um það að það er bannað að hika í þessu liði þannig að menn verða að taka skotin þegar þeir eru opnir, sama hver það er.“ „Við treystum allir hver öðrum og gefum eina aukasendingu ef einhver er í betra færi en maður sjálfur. Við höldum því bara áfram og þannig smellur þetta.“ „Við erum með mjög sterka liðsheild. Lalli er náttúrulega bara búinn að vera að þjálfa okkur síðan í ágúst eða júlí. Þetta er svona það sem hann leggur áherslu á og það er eitt af okkar markmiðum að sækja í bakið á andstæðingnum.“ Þórsarar eru nú 2-1 yfir í einvíginu og þurfa því aðeins einn sigur til að tryggja sæti sitt í úrslitum. Emil segir að liðið ætli sér alla leið. „Við ætlum okkur ekki að ná bara þessum árangri, við ætlum að fara lengra,“ sagði Emil að lokum. Ægir: Við verðum að finna einhvern mann og gjöra svo vel að dekka hann Ægir Þór Steinarsson, fyrirliði Stjörnunnar, segir að einvígið sé langt frá því að vera búiðVísir/Bára Dröfn „Við töpuðum á sóknarfráköstum í kvöld,“ sagði Ægir Þór Steinarsson, fyrirliði Stjörnunnar. „Þeir voru með betri hittni en við, spiluðu betur sóknarlega og spiluðu betri vörn. Þar liggur tapið bara.“ Þó að Stjarnan hafi tapað stórt í kvöld segir Ægir það ekki hafa nein áhrif á liðið og næsta leik. „Það skiptir engu máli. Mómentið var þeirra í dag en við vitum að sjálfstraust getur breyst á einu kvöldi og þegar þeir mæta í Garðabæinn þá getur það breyst þar.“ Við ætlum heldur betur að sýna það að við getum breytt þessu mómenti í okkar og breytt þar af leiðandi þessari seríu og koma svo hingað og sigra.“ Ægir fór svo stuttlega yfir það hvað liðið þarf að gera betur í næstu leikjum. „Fyrir það fyrsta þurfum við bara að spila betri vörn. Bæði þurfum við að spila betri vörn og svo náttúrulega hitta þeir eins og þeir gerðu í dag en við getum gert margt betur varnarlega og margt betur þegar kemur að fráköstum.“ „Þetta er svona ákveðinn vítahringur sem gerist og mómentið var þeirra en við getum breytt því.“ Þórsararnir keyrðu mikið í bakið á Stjörnumönnum í kvöld og voru oft búnir að skora aðeins örfáum sekúndum eftir að Stjörnumenn tóku sín skot. Ægir segir að liðið verði að halda í við Þórsara. „Þegar þú ert búinn að skjóta, hvort sem þú hittir eða ekki, þá eru þeir fljótir að keyra í bakið á þér. Við verðum að reyna að „matcha“ það. Hvort sem að það er maðurinn þinn eða ekki þá verðum við að finna einhvern mann og gjöra svo vel að dekka hann.“ Stjarnan fór í fimm leikja seríu á móti Grindavík í átta liða úrslitum, en Ægir segir alls ekki vera komna þreytu í Stjörnuliðið. „Heldur betur ekki. Við erum búnir að vera í löngu og ströngu tímabili og þetta er síðasti tímapunkturinn til að vera þreyttur. Ég held að margir sjái fyrir endann á þessu og núna er mómentið.“ Dominos-deild karla Þór Þorlákshöfn Stjarnan
Þór og Stjarnan mættust í Þorlákshöfn í kvöld í þriðja leik undanúrslitaeinvígisins. Gestrnir byrjuðu betur, en um miðjan fyrsta leikhluta tóku Þórsarar yfir og unnu að lokum sannfærandi sigur. Lokatölur 115-92 og strákarnir frá Þorlákshöfn eru nú einum sigri frá úrslitaeinvíginu. Gestirnir byrjuðu betur og um miðjan fyrsta leikhluta náðu þeir sjö stiga forskoti þegar Hlynur Bæringsson setti niður þrist og kom Stjörnunni í 14-7. Þá tóku heimamenn við sér og skoruðu næstu 13 stig og staðan orðin 20-14 heimamönnum í vil. Garðbæingarnir náðu aðeins að stoppa í götin og koma sóknarleiknum aftur í gang, en staðan var 30-25 að fyrsta leikhluta loknum. Liðin áttu svo erfitt með að finna körfuna fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta, en það voru heimamenn sem voru fyrri til að ranka við sér. Adomas Drungilas kom Þórsurum í níu stiga forskot um miðbik leikhlutans og Callum Lawson jók muninn í 12 stig stuttu seinna. Alexander Lindqvist minnkaði muninn í þrjú stig þegar hann setti niður góðan þrist, en Þórsarar bættu þá aftur í. Lindqvist lagaði stöðuna rétt fyrir hálfleik, en þriggja stiga skot hans sá til þess að staðan var 59-51 þegar gengið var til búningsherbergja. Þórsarar tóku fótinn aldrei af bensíngjöfinni í seinni hálfleik og fljótlega var munurinn orðinn 14 stig. Þórsarar gáfu ekki tommu eftir og undir lok þriðja leikhluta setti Callum Lawson niður einn gjörsamlega galinn þrist og staðan því 86-70 fyrir lokaleikhlutann. Þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta var munurinn svo orðinn 20 stig og brekkan ansi brött fyrir gestina. Um miðjan leikhlutann vissu báðir þjálfarar í hvað stefndi og ungu strákarnir fengu nokkrar mínútur. Þórsarar unnu að lokum 23 stiga sigur 115-92 og eru því aðeins einum sigri frá úrslitaeinvíginu. Af hverju vann Þór? Þórsarar voru mun betri aðilinn í dag og áttu sigurinn fyllilega skilinn. Ef litið er snöggt yfir tölfræði leiksins má sjá að heimamenn voru yfir í nánast öllum þáttum leiksins. Hverjir stóðu upp úr? Callum Lawson átti stórgóðan leik í liði heimamanna. Hann skoraði 26 stig, tók átta fráköst og blokkaði þar að auki tvö skot. Callum var með rúmlega 70 prósent skotnýtingu og setti niður sex þrista í aðeins átta tilraunum. Alexander Lindqvist var atkvæðamestur í liði gestanna með 20 stig. Hvað gekk illa? Gestunum gekk ansi illa að finna lausnir á sóknarleik Þórsara. Stjörnumenn töpuðu einnig frákastabaráttunni, og það gekk sérstaklega illa hjá þeim að hrifsa til sín lausa bolta í fyrri hálfleik. Hvað gerist næst? Liðin mætast í Garðabænum næstkomandi miðvikudag klukkan 20:15 þar sem að heimamenn verða með bakið upp við vegg. Tapi þeir þeim leik eru þeir komnir í sumarfrí og Þórsarar á leið í úrslitaeinvígið. Arnar: Þeir voru að fara mjög illa með okkur Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, hefur oft verið í betra skapi en eftir leik kvöldsins.Vísir/Bára Dröfn „Þórsararnir eiga það til að skjóta hrikalega vel og þeir voru bara miklu betri en við í dag. Þeir tóku okkur í kennslustund,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn. Staðan í hálfleik var 59-51, heimamönnum í vil, en þrátt fyrir að vera aðeins átta stigum undir leið Arnari ekki vel. „Mér leið bara eins og við værum 20 stigum undir. Þeir voru að fara mjög illa með okkur. Mér fannst skrýtið að við höfum náð að hanga inní þessu en svo bara stungu þeir okkur af. Eins og ég segi þá voru þeir bara miklu betri en við í dag.“ Stjarnan tók fleiri sóknarfráköst en Þórsarar í kvöld, en Arnar segir að það hafi verið augljós ástæða fyrir því. „Það var bara ekkert mikið af sóknarfráköstum í boði fyrir þá því þeir hittu alltaf. Ég held að þeir hafi verið með sex sóknarfráköst á móti níu varnarfráköstum í fyrri hálfleik þannig að það er tap fyrir okkur og svo bara héldu þeir áfram að hitta og þannig fór þetta.“ Gunnar Ólafsson þurfti aðhlynningu og þurft að fara af velli um miðjan þriðja leikhluta. Arnar segist ekki vita hver staðan á honum er. „Ekki hugmynd. Ég er ekki læknir. Það kemur bara í ljós þegar búið er að skoða hann. Ég bara veit ekki hver staðan er.“ Lárus: Ég verð bara að stilla upp í eitthvað kerfi og láta hann skjóta frá miðju næst Lárus var virkilega ánægður með framlag sinna manna í kvöld.Vísir/Hulda Margrét „Það er gaman að sjá svona framistöðu en núna þurfum við að koma okkur niður á jörðina,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, eftir sigurinn í kvöld. „Núna er pressa á okkur að fara og vinna leikinn í Ásgarði. En við erum með 160 í framlag og ég hef aldrei séð það áður.“ Það voru margir að skila góðu og miklu framlagi í Þórsliðinu í kvöld og Lárus var virkilega ánægður með liðið í heild sinni. „Ég var ánægður með þá sem komu af bekknum. Það var gott framlag frá þeim. Ég var rosalega ánægður með hvernig Halldór Garðar stýrði leiknum. Hann er með hátt í tíu stig og einnig með hátt í tíu stoðsendingar í kvöld. Mér fannst allir vera að leggja eitthvað af mörkum.“ Callum Lawson er búinn að vera virkilega öflugur í seinustu tveim leikjum og það virðist allt detta ofan í hjá honum. Lárus talaði um að hann, ásamt öðrum, séu fullir sjálfstrausts. „Ég verð bara að stilla upp í eitthvað kerfi og láta hann skjóta frá miðju næst. Sjálfstraust og rétt spennustig skiptir miklu máli.“ „Það kviknaði aðeins á Callum í síðasta leik þannig að núna bara virkaði karfan greinilega stór fyrir hann. Hann lét bara allt fljúga. Ég get svo sem ekkert útskýrt það af hverju hann er allt í einu kominn með svona mikið sjálfstraust.“ Næsti leikur liðanna er á miðvikudaginn þar sem Þórsarar geta tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu. Lárus fór aðeins yfir hvað liðið þarf að gera til að vinnaþann leik. „Ég held að bæði lið vilji spila hratt og í fyrri hálfleik voru bæði lið að hitta rosalega vel. Svo svona minnkaði hittnin hjá þeim en bara hélst hjá okkur. Þess vegna náðum við kannski að slíta þá aðeins frá okkur.“ „Björninn er ekkert unninn þó að við séum 2-1 yfir. Það skiptir engu máli hvernig við unnum þennan leik. Við hefðum alveg eins getað unnið með einu og kannski hefði það bara verið betra. Núna er það mitt að koma strákunum niður á jörðina og láta þá vita að það er pressa á þeim að klára leikinn í Ásgarði.“ Emil Karel: Það er bannað að hika í þessu liði Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs, var kampakátur í leikslok.Vísir/Bára „Þetta er tíminn til að spila sinn besta körfubolta,“ sagði Emil í leikslok. „Við komum bara vel stemmdir í leikinn og ætluðum bara að virkilega stíga á bensíngjöfina og taka þennan sigur.“ Þórsarar voru að skjóta virkilega vel í kvöld og það virtust allir vera heitir í þeim málum. Emil segir að leikmenn liðsins treysti hver öðrum fullkomlega. „Ég vil kannski fyrst óska sjómönnum með daginn hérna úr sjávarþorpinu. En við töluðum um það að það er bannað að hika í þessu liði þannig að menn verða að taka skotin þegar þeir eru opnir, sama hver það er.“ „Við treystum allir hver öðrum og gefum eina aukasendingu ef einhver er í betra færi en maður sjálfur. Við höldum því bara áfram og þannig smellur þetta.“ „Við erum með mjög sterka liðsheild. Lalli er náttúrulega bara búinn að vera að þjálfa okkur síðan í ágúst eða júlí. Þetta er svona það sem hann leggur áherslu á og það er eitt af okkar markmiðum að sækja í bakið á andstæðingnum.“ Þórsarar eru nú 2-1 yfir í einvíginu og þurfa því aðeins einn sigur til að tryggja sæti sitt í úrslitum. Emil segir að liðið ætli sér alla leið. „Við ætlum okkur ekki að ná bara þessum árangri, við ætlum að fara lengra,“ sagði Emil að lokum. Ægir: Við verðum að finna einhvern mann og gjöra svo vel að dekka hann Ægir Þór Steinarsson, fyrirliði Stjörnunnar, segir að einvígið sé langt frá því að vera búiðVísir/Bára Dröfn „Við töpuðum á sóknarfráköstum í kvöld,“ sagði Ægir Þór Steinarsson, fyrirliði Stjörnunnar. „Þeir voru með betri hittni en við, spiluðu betur sóknarlega og spiluðu betri vörn. Þar liggur tapið bara.“ Þó að Stjarnan hafi tapað stórt í kvöld segir Ægir það ekki hafa nein áhrif á liðið og næsta leik. „Það skiptir engu máli. Mómentið var þeirra í dag en við vitum að sjálfstraust getur breyst á einu kvöldi og þegar þeir mæta í Garðabæinn þá getur það breyst þar.“ Við ætlum heldur betur að sýna það að við getum breytt þessu mómenti í okkar og breytt þar af leiðandi þessari seríu og koma svo hingað og sigra.“ Ægir fór svo stuttlega yfir það hvað liðið þarf að gera betur í næstu leikjum. „Fyrir það fyrsta þurfum við bara að spila betri vörn. Bæði þurfum við að spila betri vörn og svo náttúrulega hitta þeir eins og þeir gerðu í dag en við getum gert margt betur varnarlega og margt betur þegar kemur að fráköstum.“ „Þetta er svona ákveðinn vítahringur sem gerist og mómentið var þeirra en við getum breytt því.“ Þórsararnir keyrðu mikið í bakið á Stjörnumönnum í kvöld og voru oft búnir að skora aðeins örfáum sekúndum eftir að Stjörnumenn tóku sín skot. Ægir segir að liðið verði að halda í við Þórsara. „Þegar þú ert búinn að skjóta, hvort sem þú hittir eða ekki, þá eru þeir fljótir að keyra í bakið á þér. Við verðum að reyna að „matcha“ það. Hvort sem að það er maðurinn þinn eða ekki þá verðum við að finna einhvern mann og gjöra svo vel að dekka hann.“ Stjarnan fór í fimm leikja seríu á móti Grindavík í átta liða úrslitum, en Ægir segir alls ekki vera komna þreytu í Stjörnuliðið. „Heldur betur ekki. Við erum búnir að vera í löngu og ströngu tímabili og þetta er síðasti tímapunkturinn til að vera þreyttur. Ég held að margir sjái fyrir endann á þessu og núna er mómentið.“