Handbolti

Þjálfarinn í einangrun og Arnór stýrir Álaborg í fyrsta úrslitaleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Atlasson lék í tvö ár með Álaborg og var svo ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins 2018.
Arnór Atlasson lék í tvö ár með Álaborg og var svo ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins 2018. getty/Jean Catuffe

Arnór Atlason stýrir Álaborg í fyrsta leiknum í úrslitaeinvíginu um danska meistaratitilinn gegn Bjerringbro/Silkeborg í kvöld þar sem þjálfari liðsins, Stefan Madsen, er kominn í einangrun.

Madsen hefur átt í samskiptum við einstakling sem er með kórónuveiruna og þarf því að fara í einangrun.

„Ég er mjög leiður yfir þessu því ég hlakkaði mikið til byrja þetta spennandi einvígi í troðfullri höll. Aftur á móti höfum við undirbúið okkur mjög vel og ég hef engar áhyggjur af því að láta Arnór stjórna liðinu,“ sagði Madsen á heimasíðu Álaborgar.

Arnór hefur verið aðstoðarþjálfari Álaborgar síðan hann lagði skóna á hilluna 2018. Hann varð danskur meistari með Álaborg 2017 þegar Aron Kristjánsson stýrði liðinu. Álaborg hefur fimm sinnum orðið danskur meistari (2010, 2013, 2017, 2019 og 2020).

Auk þess að vera komið í úrslit um danska meistaratitilinn er Álaborg komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið mætir Aroni Pálmarssyni og félögum í Barcelona. Sem kunnugt er gengur Aron í raðir Álaborgar í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×