Viðskipti innlent

Sam­herji og Kjálka­nes á­fram með meiri­hluta í Síldar­vinnslunni eftir út­boðið

Eiður Þór Árnason skrifar
Frá athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Norðfjarðarhöfn.
Frá athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Norðfjarðarhöfn. Vísir/Einar

Samherji hf. og Kjálkanes ehf. eru áfram stærstu hluthafar Síldarvinnslunnar hf. að loknu hlutafjárútboði félagsins sem lauk þann 12. maí. Samanlagt fara félögin með 51,8% hlut í Síldarvinnslunni en hlutabréf sjávarútvegsfyrirtækisins voru tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.

Að loknu útboði hefur Samherji minnkað eignarhlut sinn í Síldarvinnslunni úr 44,64% í 32,6% en er áfram stærsti einstaki hluthafi félagsins. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, keypti hlutabréf fyrir 60 milljónir króna í útboðinu samkvæmt tilkynningu til Kauphallar

Hlutur Kjálkaness fer úr 34,23% í 19,2% en helstu eigendur félagsins eru Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, og fólk sem tengist honum fjölskylduböndum.

Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað er áfram þriðji stærsti einstaki eigandi Síldarvinnslunnar. Félagið bætir lítillega við sig og fer úr 10,97% í 11,0% eignarhlut.

Eignarhaldsfélagið Snæfugl á nú 4,3% hlut í Síldarvinnslunni eftir útboðið en var með 5,3% eignarhlut. Samherji á 15% hlut í Snæfugli og Björgólfur Jóhannsson 5% hlut. Síldarvinnslan birti nýjan lista yfir stærstu hluthafa félagsins í dag. 

Hlutabréf seldust fyrir 30 milljarða

Hlutabréf í Síldarvinnslunni seldust fyrir 29,7 milljarða í hlutafjárútboði fyrirtækisins en alls skráðu 6.500 fjárfestar og einstaklingar sig fyrir áskrift að hlutabréfum að andvirði um 60 milljarða króna. Var því rúmlega tvölfalt meiri eftirspurn en nam sölu og nýttu seljendur sér heimild til að fjölga seldum hlutum í útboðinu um 51 milljón hluta.

Í útboðinu voru boðnir til sölu 447,6 milljónir hluta af áður útgefnum hlutum en í heild samþykkti Síldarvinnslan áskriftir fyrir 498,6 milljónir hluta eða 29,3% af hlutafé þess að sögn félagsins.

Hlutfallsleg eign 20 stærstu hluthafa Síldarvinnslunnar eftir útboðið

  1. Samherji hf. 32,6%
  2. Kjálkanes ehf. 19,2%
  3. Samvinnufélag útgerðarm. Neskau 11,0%
  4. Gildi - lífeyrissjóður 9,9%
  5. Eignarhaldsfélagið Snæfugl ehf. 4,3%
  6. Almenni lífeyrissjóðurinn 1,4%
  7. Hraunlón ehf. 1,0%
  8. Snæból ehf. 1,0%
  9. Lífeyrissjóður verslunarmanna 0,9%
  10. Olíusamlag útvegsmanna Nesk svf 0,8%
  11. Stefnir - ÍS 15 0,8%
  12. Stefnir - ÍS 5 0,6%
  13. A80 ehf. 0,5%
  14. Askja fagfjárfestasjóður 0,5%
  15. Júpíter rekstrarfélag hf. 0,5% 
  16. Stapi lífeyrissjóður 0,5% 
  17. Landsbréf hf. 0,4% 
  18. Landsbréf - Úrvalsbréf 0,4% 
  19. Stefnir - Samval 0,3% 
  20. Lífeyrissjóður bankam Aldursdei 0,3%

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×