Erlent

Hvorki fót­bolti né messur vegna smita

Sylvía Hall skrifar
Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. Getty

Engir fótboltaleikir munu fara fram í Færeyjum í dag og guðsþjónustum hefur verið aflýst vegna fjölda smita sem greindust í gær. Sextán manns greindust með veiruna og hafa ekki fleiri smit greinst á einum degi frá því í desember síðastliðnum.

Um helgina var greint frá fjórum nýjum smitum, þar af tveimur sem voru órekjanleg. Hvorugur vissi hvar hann hefði smitast eða hver hefði smitað þá. Lars Fodgaard Møller landlæknir sagði ljóst að veiran væri úti í samfélaginu.

Enginn hafði greinst með kórónuveiruna frá áramótum í síðustu viku en nú eru 23 virk smit í Færeyjum. Sem stendur liggur enginn á sjúkrahúsi með veiruna en 45 eru í sóttkví.

Talið er að um breska afbrigði veirunnar sé að ræða í öllum tilfellum. Skimunarstaðir hafa ákveðið að lengja opnunartíma sína í dag til að taka á móti sem flestum.


Tengdar fréttir

Fyrstu smit ársins hafa greinst í Fær­eyjum

Fjórir hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni í Færeyjum og eru nú í einangrun. Þetta eru fyrstu staðfestu smitin þar í landi frá því að nýtt ár gekk í garð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×