Innlent

Týndur svif­vængjaflug­maður sló kannski Ís­lands­met

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Svifvængjaflugmaðurinn lenti við Seljalandsfoss eftir langt flug.
Svifvængjaflugmaðurinn lenti við Seljalandsfoss eftir langt flug.

Á­höfn þyrlu Land­helgis­gæslunnar var fengin til að svipast um eftir svif­vængjaflug­manni í ná­grenni við Hrafna­björg, ofan við Þing­velli, í dag þar sem ekki hafði náðst í hann lengi.

Maðurinn lét síðan vita af sér skömmu síðar þar sem hann var staddur við Selja­lands­foss og hafði hann þá að sögn lögreglunnar verið á flugi í nokkra klukku­tíma og flogið vega­lengd sem er ná­lægt Ís­lands­meti í greininni og kannski lengri.

Lög­reglan, segir við Vísi, að fé­lagi mannsins hafi hringt inn með á­hyggjur af vini sínum. Þeir höfðu verið saman að stunda í­þróttina og hóf annar þeirra flug við Lágafell á Uxahryggjaleið rétt eftir hádegi

Á­kveðið verk­lag er viðhaft þegar menn stunda svifvængjaflug og láta flugmenn vita af sér með reglu­legu milli­bili. 

Ekkert heyrðist hins vegar frá manninum í dágóðan tíma og fór vinur hans þá að reyna að ná sam­bandi við hann en án árangurs. 

Lög­reglan segir að maðurinn hafi flogið svo hátt að þar hafi verið of kalt fyrir samskiptatækið, sem fór að slökkva á sér.

Þeir vinir voru svo báðir í skýjunum eftir lendinguna við Selja­lands­foss. Þeir létu lögregluna vita að maðurinn væri fundinn og til­kynntu í leiðinni að vega­lengdin sem hann hefði flogið væri mögulega nýtt Ís­lands­meti í svif­vængja­flugi.

Fréttin hefur verið uppfærð. Upprunalega stóð að mennirnir hefðu verið á svifdreka en það er annað apparat en svifvængir, þó þau séu vissulega svipuð og bæði notuð í starfsemi Fisfélags Reykjavíkur. Svifvængir eru nýrra fyrirbæri á Íslandi en þeir kallast „paragliders“ á ensku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×