Íslenski boltinn

Kostulegt rifrildi Óla Jóh og Atla Viðars: „Týpískur senter, það má ekki koma við ykkur þá farið þið niður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Jóhannesson og Atli Viðar Björnsson voru í miklum ham í Pepsi Max Stúkunni í gær.
Ólafur Jóhannesson og Atli Viðar Björnsson voru í miklum ham í Pepsi Max Stúkunni í gær. stöð 2 sport

Ólafur Jóhannesson og Atli Viðar Björnsson voru ekki sammála hvort HK hefði átt að fá vítaspyrnu gegn Val.

HK-ingar vildu fá vítaspyrnu á 71. mínútu þegar Örvar Eggertsson féll í vítateignum eftir baráttu við Johannes Vall en Erlendur Eiríksson dæmdi ekki neitt.

„Þetta er ekki víti. Af því hann brýtur ekki á honum, Atli. Þarna sparkar hann ekkert í hann, tekur bara af honum boltann,“ sagði Ólafur í Pepsi Max Stúkunni í gær. Atla Viðari fannst að Erlendur hefði átt að dæma vítaspyrnu á Vall.

„Týpískur senter, týpískur senter. Það má ekki koma við ykkur þá farið þið niður,“ sagði Ólafur.

Hann fór svo að tala um atvik þar sem Vall féll í vítateig HK í baráttu við Valgeir Valgeirsson.

„Í þessari klippu þegar Vall fór niður, hann fékk ekki gult spjald. Ef þetta hefði verið senter hefði hann fengið gult fyrir leikaraskap,“ sagði Ólafur áður en samræðurnar urðu nokkuð súrar.

Atli Viðar: „Ertu ekki að tala um Vall, þegar Valgeir fór á eftir honum?“

Óli: „Jú, þegar Valgeir fór á eftir honum.“

Atli Viðar: „Það var ekki leikaraskapur en það var heldur ekki brot. Hann sparkaði ekki í hann.“

Óli: „Bíddu, hann var að heimta víti.“

Atli Viðar: „Hann getur samt dottið.“

Óli: „Já, en hann var að heimta víti áður en hann datt.“

Atli Viðar: „Af því hann heimtaði víti ... “

Óli: „Þá er það leikaraskapur.“

Atli Viðar: „Þá er það leikaraskapur út af því að hann bað um víti?“

Óli: „Nú erum við farnir að rífast um eitthvað sem skiptir engu máli.“

Þarna fannst Guðmundi Benediktssyni nóg komið og hélt áfram með þáttinn.

Valur vann leikinn gegn HK, 3-2. Almarr Ormarsson skoraði sigurmark Valsmanna í uppbótartíma.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×