Fótbolti

Neymar: Ég vil spila með Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Neymar hafa nokkrum sinnum verið á sama velli en aldrei sem liðsfélagar.
Cristiano Ronaldo og Neymar hafa nokkrum sinnum verið á sama velli en aldrei sem liðsfélagar. Getty/Gonzalo Arroyo Moreno

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar óskar sér þess að hann fái tækifæri til að spila með Cristiano Ronaldo í framtíðinni.

Neymar er nú búinn að framlengja samning sinn við franska liðið Paris Saint Germain til ársins 2025 og eina leiðin til að hann spili í sama liði Ronaldo væri að Portúgalinn kæmi til PSG.

Það er óvissa með framtíð Cristiano Ronaldo hjá Juventus og hann hefur verið orðaður við franska stórliðið sem er líklega eitt af fáum félögum sem hefur efni á honum.

Juventus er í mikilli hættu á því að missa af Meistaradeildinni á næstu leiktíð og það er erfitt að sjá Ronaldo fyrir sér í Evrópudeildinni.

Neymar spilaði með Lionel Messi hjá Barcelona í fjögur ár en hefur verið hjá Paris Saint Germain síðan 2017.

„Ég vil spila með Cristiano Ronaldo. Ég hef spilað með frábærum leikmönnum eins og [Lionel] Messi og [Kylian] Mbappe en ég hef ekki spilað með Cristiano Ronaldo ennþá,“ sagði Neymar í viðtali við GQ.

Neymar átti sér ekkert uppáhaldslið í Evrópu þegar hann var að alast upp í Brasilíu en hélt upp á nokkra leikmenn.

„Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af einu félagi en vildi alltaf fá að sjá stjörnurnar spila. Þegar ég var strákur þá elskaði ég að horfa á stjörnurnar spila fótbolta en það voru menn eins og [Zinedine] Zidane, [Frank] Lampard, [Wayne] Rooney og [David] Beckham. Það eru leikmenn sem ég var hrifnastur af,“ sagði Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×