Fótbolti

Herrera og Verratti: Dómarinn sagði „f****** þér“ við leikmenn PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marco Verratti og Ander Herrera hjá Paris Saint-Germain tala við Bjorn Kuipers sem vill ekkert með þá hafa. Það er ekki hægt að sjá annað á svip Herrera en að hann hafi heyrt eitthvað ljótt.
Marco Verratti og Ander Herrera hjá Paris Saint-Germain tala við Bjorn Kuipers sem vill ekkert með þá hafa. Það er ekki hægt að sjá annað á svip Herrera en að hann hafi heyrt eitthvað ljótt. Getty/ Laurence Griffiths

Paris Saint-Germain leikmennirnir Ander Herrera og Marco Verratti voru allt annað en sáttir með hegðun hollenska dómarans Bjorn Kuipers gagnvart sér í tapleiknum á móti Manchester City í gærkvöldi.

Manchester City er komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn en Paris Saint-Germain tókst ekki að komast þangað annað árið í röð og bíður enn eftir hinum stóra.

Franska liðið tapaði leiknum í gær 2-0 og þar með 4-1 samanlagt. Liðið endaði manni færra inn á vellinum eftir að Angel Di Maria var rekinn af velli og þá lék PSG einnig án Kylian Mbappé sem var meiddur.

Leikmenn Paris Saint-Germain fengu mikið af spjöldum í leiknum í gær og knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino var einn af mörgum sem hópuðust af Bjorn Kuipers dómara í leikslok.

Eftir leikinn kom það síðan fram í viðtölum við leikmenn franska liðsins að hollenski dómarinn hefði svarað leikmönnunum PSG með ljótu blótsyrði á meðan leiknum stóð.

„Dómarinn í kvöld sagði f****** þér við Leandro Paredes. Ég trúði þessu ekki. Ef við myndum segja svona þá fengjum við þriggja eða fjögurra leikja bann,“ sagði Ander Herrera í samtali við BBC.

Marco Verratti hafði sömu sögu að segja: „Dómarinn sagði tvisvar við mig f****** þér. Ef við myndum segja svona þá fengjum við örugglega tíu leikja bann,“ sagði Verratti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×