Handbolti

Lena á leið í Stjörnuna: „Er að skipta því það er búið að frysta hana“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lena Margrét er á leið burt frá Fram.
Lena Margrét er á leið burt frá Fram. vísir/hulda margrét

Lena Margrét Valdimarsdóttir er að ganga í raðir Stjörnunnar í Olís-deild kvenna en hún kemur frá uppeldisfélaginu Fram. Greint var frá skiptunum í Seinni bylgjunni sem var á dagskránni á mánudagskvöldið.

Lena Margrét er ansi öflug skytta sem getur einnig leikið sem hægri hornamaður en hún hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands. Hún hefur þó verið á eftir Hildi Þorgeirsdóttur í Safamýrinni og hefur því ákveðið að skipta.

Svava Kristín Grétarsdóttir, Sigurlaun Rúnarsdóttir og Íris Ásta Pétursdóttir ræddu um skiptin í Seinni bylgjunni i gær og Sigurlaug tók fyrst við boltanum.

„Mér finnst þetta hræðilegt fyrir Fram. Hún er að skipta því það er búið að frysta hana alltof lengi. Hún er leikmaður sem átti að vera komin að minnsta kosti helming á móti Hildi,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir.

„Hildur er frábær leikmaður en það er alltaf gott að vera með tvo sterka leikmenn og sérstaklega því Lena er uppalin Framari. Þetta er stór og frábær biti fyrir Stjörnuna. Ég get gagnrýnt Stefán fyrir að yngri leikmenn fái ekki næg tækifæri og þetta er afleiðing af því, held ég,“ bætti Sigurlaug við.

„Lena og Hildur eru ótrúlega ólíkir leikmenn. Hildur er með yfirsýn og leitar að línunni og finnur góðar sendingar í hornið. Hún er mikill spilari en Lena er árásargjörn og hugsar ég er að fara skjóta. Hún er með frábær undirskot og þetta eru tveir ólíkir leikmenn,“ sagði Íris Ásta.

Innslagið má sjá í spilaranum hér að neðan þar sem má meðal annars sjá viðbrögð þjálfara Stjörnunnar er hún var spurð út í skiptin sem og af hverju væri ekki búið að tilkynna um félagaskiptin.

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um Lenu og Stjörnuna

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×