Erlent

Danir hætta notkun á bólu­efni Jans­sen

Atli Ísleifsson skrifar
Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, fundaði með fulltrúum flokka á danska þinginu í morgun.
Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, fundaði með fulltrúum flokka á danska þinginu í morgun. EPA

Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að hætta notkun á bóluefni Johnson & Johnson, Janssen, gegn kórónuveirunni.

Ekstra Bladet segir frá því að heilbrigðisráðherrann Magnus Heunicke hafi upplýst fulltrúa þingflokka á fundi í morgun um að bóluefni Janssen hafi verið tekið út úr bólusetningaáætlun danskra yfirvalda.

Danir hafa áður hætt notkun á bóluefni AstraZeneca vegna sjaldgæfra aukaverkana varðandi blóðtappa. Sama eigi nú við um bóluefni Janssen.

Danskir fjölmiðlar greina einnig frá því að viðræður standi yfir á danska þinginu um hvort að bjóða skuli þeim, sem sjálfviljugir séu reiðubúnir að fá bóluefni AstraZeneca eða Janssen, upp á slíka skammta. Danir hættu tímabundið notkun AstraZeneca 11. mars, og tóku bóluefnið úr bólusetningaáætlun sinni um miðjan apríl.

Líkt og mikið hefur verið fjallað um hafa borist nokkrar tilkynningar um „alvarleg tilfelli blóðtappa“ hjá fólki sem hafi verið bólusett gegn Covid-19 með bóluefni AstraZeneca og Janssen.

Ákvörðun danskra stjórnvalda að hætta notkun bóluefna AstraZeneca og nú einnig Janssen, þýðir að lengri tíma komi til með að taka fyrir Dani að fullbólusetja alla fullorðna.

Fréttin hefur verið uppfærð


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×