Neytendur

ESB: Við bönnuðum ykkur ekki að borða Cocoa Puffs og Lucky Charms

Eiður Þór Árnason skrifar
Evrópusambandið segir niðurstöðuna að hluta liggja í leyndarhyggju framleiðandans.
Evrópusambandið segir niðurstöðuna að hluta liggja í leyndarhyggju framleiðandans.

Mörgum brá í brún um síðustu mánaðamót þegar þær fréttir bárust að morgunkornið Cocoa Puffs og Lucky Charms yrði brátt ófáanlegt á Íslandi. Fregnirnar vöktu mikla athygli og sátu margir aðdáendur hins vinsæla morgunkorns eftir með sárt ennið eða byrjuðu að hamstra vörurnar í stórum stíl.

Að sögn innflutningsaðilans Nathan & Olsen er skýringin sú að bandaríski framleiðandinn General Mills hafi nýlega upplýst að ný uppskrift samræmdist ekki Evrópulöggjöf sem Ísland hafi innleitt í gegnum EES-samninginn.

Í kjölfarið bar á því að sárir aðdáendur beindu óánægju sinni í átt Evrópusambandinu (ESB) og sögðu bera ábyrgð á því að þeir þurfi nú að taka upp breyttar morgunvenjur. ESB tekur þetta ekki í mál og vísar ásökununum til föðurhúsanna.

Ekki horfa á okkur

„Að gefnu tilefni: ESB bannaði Íslendingum ekki að borða Cocoa Puffs og Lucky Charms um daginn! Framleiðandinn sjálfur ákvað víst að bæta litarefni út í uppskriftina, þannig að það brýtur heilbrigðisreglur,“ segir í Facebook-færslu sendinefndar ESB á Íslandi.

„Efnið er sagt vera „náttúrulegt litarefni“ en það mun vera leyndarmál hvað það heitir eða hvort það átti að setja svo mikið af því í uppskriftina að hættulegt teljist. Við vitum bara að fyrirtækið ákvað að hætta að framleiða fyrir Íslendinga.“

Í áðurnefndri tilkynningu frá Nathan & Olsen sagði að Evrópulöggjöf sem hafi verið innleidd hér á landi geti verið „hamlandi þegar kemur að því að bjóða neytendum fjölbreytt úrval af bandarískum vörum.“

ESB virðist ekki gefa mikið fyrir þessa skýringu og enda fulltrúar þess tilsvarið á því að segjast vera stolt af því að vera með framsæknar heilbrigðisreglur.

„Ekki síst ef þær eru metnaðarfyllri en á öðrum mörkuðum.“

Að gefnu tilefni: ESB bannaði Íslendingum ekki að borða Cocoa Puffs og Lucky Charms um daginn! Framleiðandinn sjálfur...

Posted by ESB - Evrópusambandið á Íslandi / European Union in Iceland on Monday, April 19, 2021





Fleiri fréttir

Sjá meira


×