Fótbolti

Bayern, Dortmund og Porto vildu ekki vera með í ofurdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bayern München og Borussia Dortmund eru ekki á meðal stofnmeðlima ofurdeildarinnar.
Bayern München og Borussia Dortmund eru ekki á meðal stofnmeðlima ofurdeildarinnar. getty/Roland Krivec

Bayern München og Borussia Dortmund lögðust gegn stofnun ofurdeildarinnar. Þetta segir Hans-Joachim Watzke, stjórnarformaður Dortmund.

Í gærkvöldi sendu tólf félög frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að þau hefðu stofnað ofurdeild til höfuðs Meistaradeild Evrópu. Ekkert þýskt félag var á meðal stofnmeðlima ofurdeildarinnar svokölluðu.

Að sögn Watzke hittust fulltrúar í stjórn ECA, sambandi knattspyrnufélaga í Evrópu, í gærkvöldi þar sem þeir voru sammála um að leggjast gegn því að ofurdeildin yrði stofnuð. 

Watzke segir að fulltrúar Bayern og Dortmund hafi verið hundrað prósent sammála í öllum meginatriðum.

Fótboltavéfréttin Fabrizio Romano greindi frá því í dag að RB Leipzig hafi ekki hug á því að ganga til liðs við félögin sem stofnuðu ofurdeildina.

Þá staðfesti forseti Porto, Pinto da Costa, að félagið hefði hafnað boði um að vera af ofurdeildinni.

„Við getum ekki tekið þátt í einhverju sem er ólöglegt. Við erum í Meistaradeildinni og verðum þar vonandi áfram,“ sagði Da Costa.


Tengdar fréttir

Frétta­skýring: Ofur­deild Evrópu

Ofurdeild þetta, ofurdeild hitt. Heitasta umræðuefni dagsins er eðlilega títtnefnd ofurdeild Evrópu í knattspyrnu. Hér að neðan verður kafað ofan í hvað felst í hugmyndinni, hvernig henni verður háttað og almennt allt sem henni viðkemur.

Liðin á bak­við ofur­deildina skuldug upp fyrir haus

Í gærkvöld birtu tólf knattspyrnufélög drög að stofnun svokallaðrar ofurdeildar Evrópu. Þótt ástæðan sé sögð vera jákvæð fyrir framþróun fótboltans í heild sinni er ljóst að liðin munu hagnast gríðarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×