Erlent

Sérfræðimat útilokar fíkniefnanotkun sem dánarorsök

Sylvía Hall skrifar
Réttarhöld yfir lögregluþjóninum Derek Chauvin standa nú yfir, en hann er ákærður fyrir að hafa verið valdur að dauða George Floyd.
Réttarhöld yfir lögregluþjóninum Derek Chauvin standa nú yfir, en hann er ákærður fyrir að hafa verið valdur að dauða George Floyd. Getty/Scott Olson

Dánarorsök George Floyd var súrefnisskortur en ekki fíkniefnanotkun eða undirliggjandi hjartakvillar. Þetta er niðurstaða sérfræðiálits Dr. Martin Tobin, lungna- og gjörgæslulæknis sem bar vitni í réttarhöldum gegn lögregluþjóninum Derek Chauvin í dag.

Frá þessu er greint á vef AP.

Floyd lést eftir að Chauvin kraup á hálsi hans í meira en níu mínútur við handtöku í fyrra, en málið leiddi til bylgju mótmæla um allan heim. Var málið sagt vera til marks um kerfisbundna fordóma innan löggæslukerfisins í Bandaríkjunum og enn eitt dæmi um að svartir einstaklingar fengju aðra meðferð af hálfu lögreglu.

Verjendur Chauvin hafa haldið því fram að fíkniefnanotkun Floyd og önnur heilsufarsvandamál hafi leitt til dauða hans en þeim sjónarmiðum var afdráttarlaust hafnað í sérfræðiáliti sem lagt var fyrir dóminn í dag. „Hefði heilbrigð manneskja fengið sömu meðferð og Floyd hefði hún dáið.“

Tobin sagði kviðdómi í dag að lögregluþjónarnir hefðu þrengt svo að öndunarvegi Floyd að hann hlaut heilaskaða og fór að lokum í hjartastopp.

Saksóknarar spiluðu myndband af handtökunni og benti Tobin á þann tímapunkt er hann sá að Floyd var látinn.

„Þú sérð að hann er með meðvitund fyrst, þú sérð smá flökt og svo hverfur þar. Þá er lífið farið úr líkamanum.“


Tengdar fréttir

Floyd var dáinn þegar bráðaliðar komu á staðinn

Tveir bráðaliðar, sem fóru á vettvang þegar lögreglumaðurinn Derek Chauvin banaði George Floyd, sögðu í vitnastúku í Minneapolis í dag að hvorki hafi fundist púls né andardráttur hjá Floyd þegar þeir mættu á vettvang.

Sýndu nýjar myndir af hand­töku Floyds

Ákæruvaldið í réttarhöldunum yfir Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumanninum sem ákærður hefur verið fyrir að hafa banað George Floyd þegar hann kraup á hálsi hans í meira en níu mínútur, sýndi kviðdómi í gær myndbönd af handtöku og dauða Floyds sem tekin voru á búkmyndavélar lögreglumanna á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×