Skoðun

Starfs­menn barna­verndar Reykja­víkur prjóna við efni nafn­lausra til­kynninga

Sara Pálsdóttir skrifar

Undirrituð hefur sem lögmaður til meðferðar mál barnaverndarnefndar Reykjavíkur á hendur foreldri og barni þess. Við meðferð málsins hefur mjög margt varhugavert komið í ljós. Umfjöllun um það væri efni í heila bók.

Barnaverndarnefnd krafðist vistunar barnsins utan heimilis án nokkurs tilefnis. Búið var að taka út aðstæður á heimili og þær metnar af starfsmönnum barnaverndar í öðru umdæmi í lagi og að ekkert tilefni væri til frekari aðgerða. Þrátt fyrir það úrskurðaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur um vistun utan heimilis. Í kjölfarið fór foreldrið huldu höfði með barni sínu og treysti á að dómstólar myndu í framhaldi ekki leggja blessun sína yfir þau mannréttindabrot sem í úrskurði barnaverndar fólust, en m.a. hafði barnavernd Reykjavíkur neitað að hitta barnið og ræða við það til að afla afstöðu þess til vistunarinnar. Síðar kom í ljós að ástæða þeirrar neitunar var sú að starfsmenn barnaverndar „vissu hvort eð er“ að barnið þráði ekkert heitar en að vera hjá foreldri sínu. Dómstólar brugðust hins vegar algerlega. Landsréttur staðfesti úrskurðinn með þeim rökum að foreldrið hefði ekki lagt fram haldbær gögn sem staðfestu að foreldrið væri nú í stakk búið til að taka við umsjá barnsins. Semsagt, sönnunarbyrðinni var snúið við, það var ekki barnaverndar sem tók barnið frá foreldri sínu að sanna að skilyrði laga til slíks inngrips inn í innstu kviku mannréttinda þessarar fjölskyldu væru uppfyllt, heldur var það foreldrisins að afsanna það. Þetta er alger afbökun á sönnunarreglum réttarríkisins.

Áður en barnið var afhent barnaverndaryfirvöldum hafði barnavernd Reykjavíkur krafist lögregluleitar að foreldrinu og krafist þess að barnið yrði afhent með lögregluvaldi. Barnavernd Reykjavíkur krafðist þess einnig að auglýst yrði eftir foreldrinu í fjölmiðlum. Á sama tíma barst nafnlaus tilkynning til barnaverndar. Um að foreldrið væri statt í tilteknu bæjarfélagi með tilteknum einstaklingi. Efni tilkynningarinnar var rangt en til viðbótar við þetta voru að finna þar upplýsingar sem enginn hafði undir höndum nema undirrituð, skjólstæðingur minn, lögreglan og barnavernd. Þegar undirrituð sá tilkynninguna fékk undirrituð vægast sagt ónotatilfinningu, enda hafði enginn „nafnlaus tilkynnandi“ getað haft umræddar upplýsingar undir höndum. Efni tilkynningarinnar var hins vegar notað af barnavernd Reykjavíkur til að „rökstyðja“ það gagnvart lögreglu, að þeir teldu öryggi barnsins ógnað. Þegar ekkert gat verið fjarri sannleikanum og miðað við gögn málsins vissu starfsmenn barnaverndar það. Staðfest er í gögnum málsins að á sama tíma og barnavernd Reykjavíkur sigaði lögreglunni á foreldrið og barnið, var foreldrið edrú, barnið öruggt og leið vel í faðmi fjölskyldu sinnar og vildi hvergi annars staðar vera en þar.

Í ljósi þessa krafðist undirrituð afléttingu nafnleyndar samkvæmt skýrri lagaheimild í barnaverndarlögum. Í synjunarbréfi barnaverndar Reykjavíkur kom í ljós, að móttakandi tilkynningarinnar (starfsmaður barnaverndar Reykjavíkur) hafði prjónað við efni tilkynningarinnar án þess að aðgreina hvaða upplýsingar stöfuðu frá hinum meinta nafnlausa tilkynnanda, og hvaða upplýsingar stöfuðu frá starfsmanninum sjálfum. M.o.ö., starfsmaður barnaverndar tilkynnti sjálfur undir nafnleynd, a.m.k. að hluta til, foreldrið, til barnaverndar. Notaði síðan tilkynninguna til að siga lögreglunni á foreldrið og barnið og rökstyðja það að þeir teldu öryggi barnsins telft í tvísýnu og þannig réttlæta það að hrifsa barnið úr fangi foreldris með lögregluvaldi.

Þetta er aðeins einn pínulítill angi af þessu máli öllu. Ég hef orðið vör við það að þöggunin í kring um þessi mál er mikil. Lögfræðingar, sálfræðingar og jafnvel fjölmiðlar óttast að fjalla um þau. Á meðan viðgangast svona vinnubrögð óátalin. Pistill þessi þjónar þeim tilgangi að skína ljósinu þar sem myrkrið þrífst. Þetta er ekki í lagi, langt í frá.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×