Innlent

Tíu milljónir til Grinda­víkur til að bæta að­­gengi við gos­­stöðvarnar

Atli Ísleifsson skrifar
Þúsundir hafa lagt leið sína að gosstöðvunum í Geldingadölum síðustu sólarhringa, en vika er í kvöld liðin frá því að gos hófst. Myndin er tekin á fimmta tímanum og virðist vera sem að flæðið úr gígnum sé eitthvað að breytast.
Þúsundir hafa lagt leið sína að gosstöðvunum í Geldingadölum síðustu sólarhringa, en vika er í kvöld liðin frá því að gos hófst. Myndin er tekin á fimmta tímanum og virðist vera sem að flæðið úr gígnum sé eitthvað að breytast. Vísir/Vilhelm

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hefur ákveðið að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða leggi allt að tíu milljónir króna til að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða gosstöðvarnar á Reykjanesi.

Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að útbúin hafi verið gróf ætlun í samvinnu við Grindavíkurbæ um það sem til standi að gera.

„Gönguleið hefur nú verið stikuð en ráðgert er að farið verði í ýmiss önnur verkefni eins og að útbúa púða fyrir aðstöðusköpun ásamt salernisaðstöðu, bílastæði, skilti og merkingar, frágangur á slóðum utan Suðurstrandarvegar.

Styrkurinn er veittur til Grindavíkurbæjar en sveitarfélagið munu halda utan um þær framkvæmdir sem til stendur að gera.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkir framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja.

Þá hefur jafnframt verið komið fyrir teljara á göngustíg sem liggur að eldstöðvunum svo fylgjast megi með umferð. Tölur verða birtar í Mælaborði ferðaþjónustunnar eins og er með fjölda ferðamannastaða um land allt,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×