Handbolti

„Er ég áhyggjufullur? Já“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Landin í leik gegn Füchse Berlin undir lok síðasta mánaðar.
Landin í leik gegn Füchse Berlin undir lok síðasta mánaðar. Martin Rose/Getty Images

Árið fyrir danska landsliðsmarkvörðrinn og leikmann Kiel, Niklas Landin, hefur verið ansi viðburðarríkt eftir heimsmeistaramótið í Egyptalandi.

Eftir HM, þar sem Danir stóðu uppi sem sigurvegarar, náðu Landin og félagar að spila einn leik áður en þeir voru sendir í sóttkví vegna kórónuveirusmits hjá þýska landsliðinu.

Þegar þeir fengu svo aftur grænt ljós á að spila, þá beið þeirra sjö leikir á þrettán dögum.

„Við gerðum ekkert í fjórtán daga. Við reyndum að æfa heima en við gátum ekki hlaupið eða neitt,“ sagði Landin í samtali við BT.

„Það var kannski fínt fyrir höfuðið að fá smá ró eftir lokakeppnina en svo hljóp maður bara á múr þegar við byrjuðum aftur.“

„Það kom bara önnur lokakeppni eftir HM, ef maður getur sgat það þannig. Þetta voru sérstakir þrettán dagar. Maður gat aldrei slappað af.“

„Við æfðum ekki. Við hittumst bara og undirbjuggum okkur fyrir næsta leik. Leikmennirnir voru svo búnir á því, að við gátum ekki æft. Þetta gengur ekki.“

Danski landsliðsþjálfarinn Nicolaj Jacobsen sagðist hafa áhyggjur af nokkrum leikmönnum sínum sem hefðu leikið ansa marga leiki á árinu 2021.

Hann bætti því við að hann íhugaði að gefa nokkrum leikmönnum frí í næsta verkefni Dana en þeirra bíður svo Ólympíuleikar í sumar, svo ekki minnkar álagið.

Hvort að Landin sé einn af þeim sem þurfi hlé svaraði markvörðurinn:

„Ég veit það ekki. Við verðum að sjá til. Við spilum núna þriðja eða fjórða hvern dag hjá Kiel og það hjálpar. Að vera spila annan hvern dag gengur ekki,“ en er hann áhyggjufullur fyrir þeirri dagskrá sem bíður Dana fyrir Ólympíuleikana?

„Áhyggjufullur? Já, það er ég. Þetta verður mjög erfitt þangað til 27. júní, er Bundesligunni lýkur og svo hefjum við undirbúning fyrir Ólympíuleikana 1. júlí.“

„Þess vegna verður það erfitt - sérstaklega fyrir höfuðið,“ sagði Landin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×